151. löggjafarþing — 39. fundur,  16. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[17:30]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Páll Jónsson) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja á því að segja að ég gleymdi að nefna það í framsögu minni að þeir sem skrifa undir þetta nefndarálit eru að sjálfsögðu sá sem hér stendur og hv. þm. Ólafur Ísleifsson. Við erum saman í nefndinni. Ég vil þakka hv. þm. Haraldi Benediktssyni fyrir andsvarið. Hann spyr um áhyggjur af broti á samningi. Ég rakti það í lok ræðu minnar áðan að ég hefði ekki þær áhyggjur vegna þess að framkvæmdastjóri Evrópusambandsins hefur lýst yfir neyðarástandi í Evrópusambandinu, eða í landbúnaðarmálum þar, og þeir hafa gripið til aðgerða. Ef Evrópusambandinu fyndist við vera að stíga út fyrir rammann þá yrði bara kallað til fundar í sameiginlegu EES-nefndinni þar sem við gætum bent á það. Gagnkvæmni samningsins væri þar af leiðandi ekki í hættu. Ég er heldur ekki lögfræðingur, hv. þingmaður. Ég lærði rafvirkjun einhvern tímann á miðri síðustu öld og síðan hef ég verið sjómaður til margra ára. En það eru margir mjög miklir lögspekingar í mörgum beitingarskúrum þannig að ég get verið með þokkalega beint bak í pontu Alþingis yfir því. En ég hef ekki þessar áhyggjur sem hv. þingmaður spyr um.