151. löggjafarþing — 39. fundur,  16. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[18:41]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla að halda stutta ræðu um mál sem ég hef mjög takmarkaða þekkingu á. Það er nú þekkt í þessum sal að menn geri það og eiginlega meginregla frekar en undantekning. Ég vil ræða aðeins almennt um landbúnaðinn af því að ég hef lengi talið mér trú um að ég sé tiltölulega frjálslyndur maður, sem kann að vera einhver misskilningur. Ég hef alltaf litið á landbúnaðinn sem mjög mikilvæga atvinnugrein. Ég held að það sé mikið hagsmunamál fyrir þjóðina að hér sé sæmilega stöndugur landbúnaður og ég held að það sé rétt sem hv. 1. þm. Norðvest., Haraldur Benediktsson, sagði áðan að við erum búin að vera alveg ótrúlega úrræðalaus árum saman í að halda utan um þessa grein þannig að hún geti þróast eðlilega og staðið í eðlilegri samkeppni og sé sæmilega stöndug.

Þá er spurningin: Hvað á að gera? Snýst þetta bara einhvern veginn um eitthvert frelsi sem ég hef nú aldrei almennilega áttað mig á í þessari umræðu? Snýst þetta um eitthvert frelsi sem er bara til hagsbóta fyrir neytendur eða er þetta miklu stærra mál? Í mínum huga er þetta risastórt mál, þ.e. að við séum hér sjálfbær með matvælaframleiðslu í landinu. Það gerist ekki nema landbúnaðurinn sé í sæmilegu standi. Hvaða úrræði nota menn almennt til að tryggja að matvælaframleiðsla í löndum þeirra geti verið eðlileg og frambærileg? Jú, menn hafa notað tvennt, menn hafa notað tollvernd og menn hafa notað eins konar beingreiðslur eða niðurgreiðslur og styrkjafyrirkomulag. Mér hefur nú sýnst að venjulega sé hvoru tveggja beitt.

Af því að ég veit að margir þingmenn halda að Evrópusambandið sé eitthvað sérstaklega frjálslynt í þessu sambandi og þar sé mikið frelsi þá ver það auðvitað sinn landbúnað gagnvart löndum utan ESB með tollvernd ekkert síður en niðurgreiðslum og styrkjum. Þannig var það síðast þegar ég vissi. Tollvernd er ekki sama og einhverjir múrar. Það er engin hindrun á viðskiptafrelsi. Ég held að það sé eiginlega hvergi jafn mikið viðskiptafrelsi og á Íslandi. Og alveg örugglega ekki í ESB.

Ég ætla að byrja á að segja að ég veit auðvitað ekki hvað er nákvæmlega rétt að gera til að tryggja það markmið að hér sé sæmilega stöndugur landbúnaður. Ég er bara ekki viss um það. Ég hvet þingheim samt til þess að fara almennilega yfir það hvaða úrræði eru best, hvaða aðgerðir þarf að fara í svo að hér í þessu landi sé sæmilegur landbúnaður, sæmileg matvælaframleiðsla. Við hljótum að geta komist að einhverri niðurstöðu í því. Við getum bara ekki látið þessa grein drabbast niður af því að við erum svo upptekin af að fá eitthvað ódýrara annars staðar. Það má eiginlega segja að það sé að pissa í skóinn.

Það eru risahagsmunir í mínum huga að hér sé landbúnaður og ekki bara í matvælaframleiðslu. Bændur eru auðvitað bara ótrúlega mikilvæg stétt í svona stóru landi þar sem við erum svona fá til að halda þessu landi í sæmilegri rækt, sjá um náttúru þessa lands sem þeir hafa gert allar aldir með frábærum árangri. Við sjáum fólk flosna upp frá mörgum jörðum. Það er ekki góð þróun. Það getur vel verið að ég sé farinn að tala eins og einhver Framsóknarmaður en ég horfi á þetta út frá stóru hagsmunamálunum. Stóru hagsmunirnir eru þeir að við höfum hér frambærilegan alvörulandbúnað sem við getum auðvitað bætt og gert miklu betur að mörgu leyti. Það hefur verið mikil hagræðing en við þurfum að fara rækilega yfir þessi mál og koma þessu í betra horf.