151. löggjafarþing — 39. fundur,  16. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[19:26]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna, hún var nokkuð skýr. Ég var reyndar pínu hissa á því hvað honum líkaði ofboðslega vel við ræðu hv. þm. Brynjars Níelssonar. Ég hlustað á hana og mér fannst hún ekkert sérstaklega góð. Ég var ekki bara ósammála henni heldur fannst mér hún ekki sannfærandi varðandi málefnið sem um ræðir. En gott og vel, það er aukaatriði, ég ætlaði ekki að ræða við hv. þingmann um það.

Hv. þingmaður fór hér aðeins yfir EES-samninginn, 112. gr. og 113. gr., og minntist á 102. gr. sem kom til umræðu í orkupakka þrjú málinu, því havaríi öllu saman, sællar minningar. Hv. þingmaður talar eins og Miðflokksmenn gerðu þá og gera greinilega enn, að það sé ekkert mál að nýta neyðarúrræði í samningnum eða gerir ráð fyrir því að það að nýta slík neyðarúrræði varði sjálfkrafa hagsmuni Íslands. Ágreiningurinn, eftir því sem ég fæ best séð, snýr ekki að því hvort 112. og 113. gr. séu enn í gildi heldur hvort það sé skynsamlegt, út frá hagsmunum Íslands, að beita þeim. Það er allt önnur spurning. Ef ég les greinarnar þá tel ég, með þá grunnu þekkingu sem ég hef á efninu, að það standist alveg hjá Miðflokksmönnum að 112. og 113. gr. myndu gilda um þessar aðstæður enda erum við í mjög vondum aðstæðum og það er óumdeilt af öllum í heiminum, nema kannski einstaka þjóðhöfðingjum hér og þar. Það þýðir ekki að það sé góð hugmynd. Í samningi sem fólk gerir, um eitthvert verktilboð og því um líkt, er oft klausa um það hvað skuli gera ef óviðráðanlegar aðstæður koma upp. Sú klausa er í gildi en auðvitað forðast maður að beita henni nema tilefnið sé ærið og að það komi sér vel fyrir hagsmuni þess sem hyggst beita henni. Ef það kemur sér ekki vel fyrir þá hagsmuni þá á maður auðvitað ekki að beita henni.

Virðulegi forseti. Ég hef ekki spurningu enda heitir liðurinn reyndar andsvar. En mér þætti vænt um að hv. þingmaður brygðist aðeins við þessu.