151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

almannatryggingar.

[10:46]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Þann 10. desember, í svari við óundirbúinni fyrirspurn hv. þm. Ingu Sæland, sagði hæstv. fjármálaráðherra orðrétt, með leyfi forseta:

„Við höfum gert sérstakar úrbætur fyrir þennan hóp tiltölulega nýlega með breytingu sem félagsmálaráðherra kynnti fyrir þinginu. Það kom í kjölfarið á því að úttekt sem hópur sérfræðinga og hagsmunaaðila framkvæmdi sýndi að það væru einstaklingar í viðkvæmri stöðu í þessum hópi, einstæðingar sérstaklega, fólk með mjög lágar lífeyristekjur eða engar, og við gætum með sérstökum úrræðum lyft sérstaklega undir með þeim hópi. Þetta gerðum við með lagabreytingu en við höfum ekki boðað því til viðbótar aðrar sérstakar aðgerðir.“

Þarna geri ég ráð fyrir að hæstv. fjármálaráðherra eigi við búsetuskerðingar sem voru samþykktar hér, búsetuskerðingar þar sem samþykkt voru 90% af lægstu upphæð sem ellilífeyrisþegar þurfa lifa á, lægstu upphæð sem er undir fátæktarmörkum. Hann gleymdi að segja frá því og hlýtur líka vera stoltur af því að þarna var settur 100% skerðingarskattur, króna á móti krónu var aftur sett á þennan hóp og hann skilur þann hóp eftir í algerri fátæktargildru þar sem hann á ekki möguleika á að hjálpa sér.

En síðan bætir hann um betur og segir að sá hópur eigi ekki að fá það sem aðrir hafa fengið fyrir jólin og á þessu ári. Öryrkjar hafa fengið 70.000 kr. eingreiðslu skatta- og skerðingarlaust. Það er gott. En hvers vegna í ósköpunum fær þessi hópur hana ekki líka? Þessi hópur er jafn viðkvæmur og jafnvel viðkvæmari að mörgu leyti. Stór hópur annarra eldri borgara er líka í sömu stöðu. Það er eiginlega stórfurðulegt í þessu samhengi að við skulum ekki hafa haft getu til þess að sjá til þess að þessi hópur fengi líka 70.000 kr. skatta- og skerðingarlaust. Af hverju ekki? Hvers vegna í ósköpunum þarf þessi hópur að sitja eftir?