151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

almannatryggingar.

[10:51]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Þessi hópur lifir ekki á þróun ráðstöfunartekna. Hann lifir á því sem kemur í vasann. Það lifir enginn á 200.000 kr. Þá spyr ég: Er hæstv. fjármálaráðherra sammála því að hækka þessa hópa um 3,6% og okkur þingmenn og ráðherra um svipaða prósentutölu sem þýðir að ráðherra fær upp undir 70.000 kr. á mánuði en þessi hópur 9.000 kr.? Er þetta í lagi? Ég segi nei. Þetta ætti að snúa þessu snúast algerlega við. Það er út í hött að tala um einhverja þróun ráðstöfunartekna þegar bilið gliðnar alltaf meira og meira, við eigum að hætta með þessar prósentutölur og taka upp krónutölur. Er hæstv. fjármálaráðherra ekki sammála mér í því að við ættum að snúa þessu við, þannig að eldri borgarar og þeir sem verst hafa það fái 70.000 kr. en við fáum þær 9.000 kr. sem þeim eru boðnar?