151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[14:29]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Hv. þingmaður fór hér yfir fjölmörg málefnasvið og setti hlutina í ákveðið samhengi sem ég ætla ekkert að fara að rengja beinlínis. Þetta er spurning um samhengi og ég er sammála hv. þingmanni að því leytinu til. Það er rétt að við erum að rýna fjármálaáætlun. En þá verðum við að hafa í huga hvað þessi fjármálaáætlun er að boða. Við erum fyrst og fremst í mikilli óvissu, við erfiðar efnahagslegar aðstæður að reyna að móta það umfang sem við horfum til á næstu árum, til ársins 2025.

Þegar við setjum hlutina síðan í samhengi verðum við að horfa á hvað hefur verið gert á þessu kjörtímabili þegar við skoðum stök málefnasvið. Öðruvísi fáum við enga mynd á það hver þróunin er í forgangi málefnasviðanna. Við skulum byrja á nýsköpuninni. Það er búið að auka til nýsköpunar um 74% á þessu kjörtímabili sem hlýtur að vera nánast einsdæmi á jafn skömmum tíma. Hv. þingmaður sagði að ekki væri nóg gert og það kann vel að vera að við getum deilt um það hvenær er komið nóg. En við erum að vinna líka með fjáraukalagafrumvarp. Nú vorum að koma inn í fjáraukann breytingartillögu um 3 milljarða kr. útgjöld vegna ráðstafana sem við ákváðum hér á þingi fyrr í vor um að hækka endurgreiðslur til rannsóknar og þróunar og nýsköpunar og hækka þak. (Forseti hringir.) Það eru 3 milljarðar bara núna. Það segir okkur að þessar aðgerðir eru að virka og þær eru að koma inn á fullri ferð, 3 milljarðar.