151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[14:34]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Mér leið eitt augnablik eins og ég væri inni í einhverju samfélagsmiðlasamtali. En nú er ég kominn í ræðustólinn og á í andsvörum við hv. þm. Ágúst Ólaf Ágústsson og reyni að halda mig við það samtal. Já, veðjum á nýsköpunina. Við erum að veðja á nýsköpunina. Það sem ég er að reyna að koma á framfæri hér, af því að hv. þingmaður setti hlutina í ákveðið samhengi, er að þegar við aukum inn á málefnasvið eins og nýsköpun þá fara fjármunir þar varanlega inn. Það eru komnir 10 milljarðar, mestmegnis núna á milli 2019 og 2021. Síðan fjarar það aðeins út af því að við erum í átaki. Það verða 6 milljarðar varanlega inni í kerfinu. Það er mjög mikilvægt að við komum þeim skilaboðum rétt á framfæri.

Tökum annað mál sem eru umhverfismálin. Þar voru framlög 16 milljarðar þegar við tókum við á þessu kjörtímabili. Það eru komnir 8 milljarðar varanlega inn í umhverfismálin, rúmlega 24 milljarðar og þeir verða 26 árið 2025. Það er 10 milljörðum meira á ári að fara varanlega til umhverfismála vegna þess að við erum græn ríkisstjórn og við erum að sinna þessum málaflokki. Þetta er bara annað samhengi en það er hið rétta samhengi.

Við verðum að meta fjármálaáætlun eins og hún er lögð fram í samhengi við það sem við erum að gera. Þegar við setjum fjármuni inn koma þeir varanlega inn. Það sem hv. þingmaður er að gera er að taka það sem er til lækkunar, sem eru einskiptis Covid-aðgerðir — og við vonum að séu einskiptis vegna þess að til þess eru þær ætlaðar, til að koma okkur út úr þessu kófi — og svo er það fjárfestingarátakið. Þegar við erum búin að byggja húsið þá er það bara búið. Þá dettur það út. Það eru liðirnir sem eru niður.