151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[15:12]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Fyrri áform, já, þetta er miðað við fyrri áform, fjárlagaramma síðasta árs, það að við kláruðum þetta þá og sinntum þeim verkefnum sem við sinntum þá og það kostaði þetta mikið. Maður spyr: Hvað kostaði samt þetta verkefni sem stofnun eða ráðuneyti á að sinna samkvæmt lögum? Og svarið er: Ég veit það ekki, ekki hugmynd. En hitt verkefnið? Við vitum bara hvað þau kosta öll saman. Það, hv. þingmaður, er gisk. Þegar við sem erum að setja lögin og fáum kostnaðarmat á verkefni sem við erum að leggja á framkvæmdarvaldið, ábyrgð um réttindi borgara og þjónustu fyrir borgara sem á að kostnaðarmeta, þegar við tökum ákvarðanir um að það eigi að veita þá þjónustu að tryggja þessi réttindi og það er kostnaðarmetið hversu mikið þau réttindi kosta, hversu mikið sú þjónusta kostar, að maður geti ekki spurt eftir á þegar það er komið í gagnið hvað þetta kostaði í raun og veru, að svarið sé: Ég veit það ekki — það þýðir að við erum að giska. Það þýðir að sá fjárlagarammi sem er undir rökstyður ekki að það sé verið að uppfylla þau réttindi og þær þjónustuþarfir sem við sjáum endurspeglast í löngum biðlistum, í fráflæðisvandanum og því öllu. Fjárheimildirnar sem við leggjum hérna inn virðast ekki vera að leysa vandamálin. Þær virðast ekki standa undir þjónustukröfum miðað við biðlistana. Einhverra hluta vegna notum við sömu fjármuni og síðast af því að við komumst í gegnum árið og vorum í plús í heildarsamhenginu (Forseti hringir.) en við vorum ekki nógu fókuseruð. (Forseti hringir.) Við vorum ekki nógu skilvirk til að geta rökstutt hvert eitt og einasta verkefni. Það er gisk.