151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[15:14]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka svörin. Í seinna andsvari er framhaldsandsvar og ég hafna giski alfarið. Númer tvö í stefnu stjórnvalda eru sértækar Covid-aðgerðir. Er það gisk? Nei. Það er alveg fádæma útgjaldaaukning frá fjárlögum til frumvarps. Við erum að tala um 180 milljarða og það er ekki meira gisk en svo að ég man það. Þar af eru 120 milljarðar í sértækar Covid-aðgerðir, sértækar. Það er markmið í stefnu stjórnvalda. Í þriðja lagi er það að leyfa sjálfvirku sveiflujöfnurunum, bótakerfunum að virka og við höfum meira að segja bætt í þar. Við höfum lækkað skatta þannig að áhrifin verða enn meiri og við höfum lengt tekjutengda tímabil atvinnuleysisbóta og við höfum líka hækkað grunnbætur. Í áætluninni má síðan í nefndaráliti meiri hluta lesa útfærslu þessara markmiða, (Forseti hringir.) þannig að þetta er ekkert gisk. Hv. þm. Haraldur Benediktsson, framsögumaður meiri hlutans, (Forseti hringir.) fór vel yfir á bls 3. Ég bið hv. þingmann um að lesa þetta vel. (Forseti hringir.) Þá sér hann hringrásarferli stefnumörkunar eins og lög um opinber fjármál gefa okkur.