151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[15:19]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að minnast einmitt á nýsköpun því að þar voru einhverjir galdrar framkvæmdir. Það er verið að stefna að því að leggja Nýsköpunarmiðstöð niður og nýsköpunarverkefni sem voru þar færast til ýmissa annarra stofnana sem með einhverjum galdralegum hætti kostar ekkert að færa til þeirra í stjórnsýsluaðgerðum. Afgangurinn er einhverjar 200 milljónir sem færast inn í ríkissjóð, minnir mig að hafi verið, eitthvað því um líkt. Það er þá kannski stjórnsýslukostnaður þess að reka Nýsköpunarmiðstöð en ekki þeirra nýsköpunarverkefna sem voru unnin innan hennar. Þarna finnst mér einmitt galdurinn vera merkilegur, að verkefni sem kostar einhverja stjórnsýslu að sinna sé fært til annars stjórnsýsluaðila án þess að búast við því að það verði einhver aukakostnaður af því stjórnsýslulega séð. Það finnst mér bara stórkostlegur galdur. Getum við ekki gert þetta við allt, bara lagt niður allar stofnanir, fært til einhverra annarra stofnana sem nota engan stjórnsýslukostnað til þess að reka nákvæmlega þau verkefni? Þetta er bara galdur, bara æðislegt.

Formið, hv. þingmaður, er rosalega mikilvægt samkvæmt áliti fjármálaráðs, og sérstaklega í þessu árferði. Formið byrjar stjórnmálin. Niðurstaðan úr faglegu greiningarferli er síðan eitthvað sem við stjórnmálamenn notum til að byggja ákvarðanir okkar á. Ef hv. þingmaður vill taka ákvarðanir án faglegs greiningarferlis þá er það honum alveg velkomið en það er ekki pólitík sem ég vil. Kannski þegar við fáum slíkt formlegt greiningarferli til að vinna með kemur það betur í ljós hvaða pólitík Píratar vilja en fyrsta pólitíkin sem við viljum er faglegt greiningarferli, kostnaðarmat, ábatamat, valkostagreining og þess háttar (Forseti hringir.) til að hægt sé að taka ákvarðanir sem hægt er að rökstyðja fyrir fólki að séu góðar en ekki bara ágiskun.