151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[15:25]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Öll ræðan fjallaði í rauninni um svar við þessu. Þetta eru rosalega falleg orð en það er nákvæmlega ekkert sem segir að markmiðunum verði náð, ekki að það sem lagt er fram til að ná þessum markmiðum sé besta mögulega lausnin. Það er ekki útskýrt að þetta sé besta mögulega lausnin. Það er ekki útskýrt að ef við gerum A náum við verri árangri en ef við gerum B og þess vegna ætlum við að gera B.

Ég vil alla vega stunda þannig pólitík að ég vil frekar kjósa fólk sem reynir að gera hlutina rétt og eftir bókinni. Ferlin eru sett upp til að kenna okkur á þau mistök sem við höfum gert áður. Við höfum upplifað mistök eftir mistök eftir mistök sem hafa kostað ríkissjóð milljarða út af lagasetningu sem var gerð í flýti, út af lagasetningu sem þurfti að — já, við skulum bara sleppa stóru orðunum með það. Ég minntist á Landsréttarmálið hér áðan og ég get talað um málið þar sem vísað er í ranga grein varðandi skerðingar á lífeyrisréttindum vegna atvinnutekna.

Virðulegi forseti. Grundvöllurinn að faglegri vinnu, ekki bara ríkisvaldsins sem við eigum að hafa eftirlit með heldur þingsins líka, liggur í því að við fáum þær upplýsingar sem við þurfum til að geta tekið upplýsta ákvörðun. Varðandi þessi fimm atriði (Forseti hringir.) liggur það ekki fyrir og þar af leiðandi er öll ákvörðun sem við byggjum á (Forseti hringir.) bara: Við höldum að þetta komi til með að virka.