151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[15:29]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fræðin segja okkur að í þessu ástandi séu skattalækkanir góðar. Við þurfum að velja hvar við ætlum að beita skattalækkunum og hvernig. Ríkisstjórnin hefur nokkrar góðar hugmyndir um það og aðrar slæmar eins og gengur og gerist. Við vorum með tillögur strax við fyrsta fjáraukann um aukin útgjöld í nýsköpunarstarfsemi. Það liggur alveg fyrir. Við vorum með tillögur í fyrri fjárlögum um hvar við gætum verið að lækka eða hækka skatta eins og fjármagnstekjuskatt og ýmislegt svoleiðis. Gögnin um það eru alveg til. En efni og aðstæður breyta því líka hvenær er gott að hækka skatta eða lækka þá. Og það er eitt sem mér finnst vanta í framhaldi af þessu. Það eru engar hugmyndir um hvernig við eigum að vinna okkur upp úr hruninu eftir að við höfum hætt skuldasöfnuninni. Hvernig á í rauninni (Forseti hringir.) í því ástandi væntanlega að hækka skatta? Ríkisstjórnin vill ekki segja neitt um það. Það er væntanlega nauðsynlegt (Forseti hringir.) þegar við komum að þeim punkti í viðspyrnunni, endurkomunni í hagkerfinu.