151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[16:05]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Hv. þingmaður sagði: Já, það er rétt, hér er um mikilvæg atriði í þessari áætlun að ræða. Við munum reyndar endurskoða hana eftir rúmlega tvo mánuði og þá getum við vonandi sett af stað það hringrásarferli stefnumörkunar sem lög um opinber fjármál formgera. Okkur gefst betri tími til að rannsaka fleiri þætti í áætluninni og veita stjórnvöldum aðhald. Í ræðu sinni kom hv. þingmaður inn á það að ákvörðun Alþingis hefði verið u.þ.b. 2 milljarðar og að það væri nú lítið eftir alla þessa vinnu. Ég vil reyndar koma því að hér að þetta er óvenju mikið í sögulegu samhengi og meira en oftast áður þegar við leggjum saman ákvörðun ríkisstjórnar og ákvörðun Alþingis á milli umræðna. Það dregur kannski fram þær krefjandi aðstæður sem við erum að fást við. Auðvitað snýst vinna okkar í fjárlaganefnd ekki bara um að sjá tækifæri til að eyða peningum heldur snýst hún um að veita stjórnvöldum aðhald. Ég held að við gerum afar vel í því og það skiptir miklu máli.

Nú er það svo að hv. þingmaður segir að við séum á ystu nöf. Varðandi skuldsetningu vil ég bara vísa í ábendingar fjármálaráðs sem fór mjög vel yfir það sem heitir sjálfbærni ríkisfjármála til framtíðar og segir það ekki áhyggjuefni um stundarsakir en að því séu takmörk sett hversu langt megi ganga. Við erum að ganga að lægri mörkum þess af því að þetta er ekki algilt viðmið sem er til heldur er oft talað um að í hagkerfi eins okkar gæti það legið á bilinu (Forseti hringir.) frá 60 upp í 80, 90%. Við verðum á þessum tíma, (Forseti hringir.) miðað við áætlun, komin rétt við eða í 60%.