151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[16:08]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisandsvar. Af því að hv. þingmaður kom inn á að við værum á ystu nöf þegar kemur að skuldsetningu þá var ég nú einfaldlega að vitna til orða framsögumanns, hv. þm. Haraldar Benediktssonar. Ég tek undir það með honum, og það sést í áliti mínu, að við þurfum að fara afar varlega í þessi mál. Það má lítið út af bregða og úthald ríkissjóðs er ekki endalaust þegar kemur að skuldsetningu. Á endanum eru það náttúrlega skattgreiðendur í landinu sem koma til með að þurfa að bera ábyrgðina þegar kemur að því að greiða þessar skuldir. Ef ekki næst að greiða þetta niður undir formerkjum hagvaxtar, sem gert er ráð fyrir í spám, lendir það á endanum á almenningi, því miður, í skattahækkunum eða niðurskurði. Þetta hefur ágætur hagfræðiprófessor, Ragnar Árnason, staðfest og sett fram eins og ég nefndi áðan.

En af því að hv. þingmaður kom inn á þetta með óvenjulegar aðstæður og þær breytingar sem hafa verið gerðar og að Alþingi hafi verið með mjög lítinn hluta af þeim miklu breytingartillögum við fjárlög sem hafa verið lagðar fram þá eru þetta náttúrlega mjög óvenjulegar aðstæður. Ég held að það hafi aldrei gerst að komið hafi breytingartillaga við fjárlög upp á 53 milljarða, eða hvað það var. Að því leytinu til er þetta mjög sérstakt. Engu að síður verð ég að segja að vinna Alþingis er að sjálfsögðu mikilvæg og ég tek heils hugar undir eftirlitshlutverk Alþingis eins og hv. þingmaður ræddi.

Ég vil bara í lokin þakka honum fyrir þessa vinnu, (Forseti hringir.) hvernig hann hefur stjórnað fundum (Forseti hringir.) varðandi vinnu við fjármálaáætlun með ágætum. Vonandi horfum við fram á bjartari tíma á nýju ári (Forseti hringir.) þó að það sé svona mikil óvissa í kortunum eins og er.