151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[16:39]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég held að þetta hafi bara skýrst ágætlega í svörum hv. þingmanns. Ég var hreinlega ekki viss hvað ég ætti að lesa út úr nefndarálitinu og hvort hv. þingmaður væri hreinlega að mótmæla þeirri stóru mynd sem sett er fram í fjármálaáætluninni. En mér heyrist hv. þingmaður taka undir hana, að hún sé hlynnt henni en að hún hefði kannski viljað hafa einhverja hluti öðruvísi.

Ég vona að ég sé ekki að leggja hv. þingmanni orð í munn hér en ég skil það þannig að þetta séu efnahagsviðbrögð, þ.e. að eðlilegt sé við þessar aðstæður að ríkissjóður safni skuldum og það sé gert til að við getum haldið kerfunum okkar rúllandi í gegnum þessa tíma. En vegna ummæla um heilbrigðiskerfið hlýt ég að mótmæla þeim því að á öllu þessu kjörtímabili hefur miklum fjármunum verið bætt inn í það. Eins og hv. þingmaður sagði sjálf er fyrirhugað að skaffa 100 ný hjúkrunarrými og einnig er verið að leggja meiri peninga í hjúkrunarheimilin. Aðhaldskrafan sem er gerð er því svo langtum minni en þau nýju og auknu útgjöld sem fara til heilbrigðismálanna. Þarna er ég því ósammála hv. þingmanni og finnst þessi framsetning villandi. Það lítur út eins og verið sé að skera niður þegar raunin er að verið er að auka alveg gríðarlega við fjármuni til heilbrigðiskerfisins.