151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[16:42]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir síðara andsvarið. Það sem ég er að reyna að draga fram í umræðunni um þessa fjármálaáætlun er í rauninni að hún gildir til afskaplega skamms tíma, jafnvel þó að svo eigi að heita að hún gildi til fimm ára. Samkvæmt lögum þarf að koma með nýja fyrir 1. apríl, bara á næsta ári. Það verður þá væntanlega í síðasta skiptið sem við fjöllum um fjármálaáætlun þessarar ríkisstjórnar nema hún verði endurkjörin. Það verður þá ný ríkisstjórn sem fær það í fangið sem þessi ríkisstjórn skilur eftir sig. Það segir sig alfarið sjálft.

Hv. þingmaður minnti okkur á það, og það kom svo sem fram í ræðu minni hér áðan, að það eru kosningar á hausti komanda þannig að seðlabankastjóri, fjármálaráð og fleiri aðilar hafa tjáð sig um þann freistnivanda sem skapast getur af því að reyna að kaupa sér áfram völd með því að fara jafnvel of geyst í loforðin og skuldasöfnun og annað slíkt.

Hvað lýtur að heilbrigðisstofnunum er ég algjörlega ósammála hv. þingmanni um að hér sé bara búið að bæta inn fullt af peningum. Staðreyndin er sú að hér er öldruðum t.d. að fjölga mjög þannig að það er í rauninni ekki einu sinni búið að fjármagna hvernig reka á hjúkrunarheimilin. Ég skal taka dæmi af sjálfri mér um hversu frábært heilbrigðiskerfið er. Ég er nánast búin að vera handlama á báðum höndum í tæpar sjö vikur og ég er enn að bíða eftir því að komast til sérfræðings sem ég þarf að leita til í gegnum heilsugæsluna. Heimilislæknir sendi tilvísun fyrir sjö vikum til að segja hversu nauðsynlegt væri fyrir mig, eftir alls konar myndatökur og dótarí, að komast til handasérfræðings. En nei, hugsanlega einhvern tímann eftir áramót. Þannig að ég segi: Hlutirnir ganga betur á sumum stöðum í heilbrigðiskerfinu sem en á öðrum. Það er alveg á hreinu. (Forseti hringir.) Og það á ekki að eiga sér stað að við séum með aðhaldskröfu á þessum tímum.