151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[16:44]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Hvert er hlutverk Alþingis sem fjárstjórnarvalds? Hvernig fer það með þetta vald og ábyrgðina sem því fylgir? Hvernig sinnir ríkisstjórnin samráðinu við þingið? Hver er hlutdeild krónunnar í þeim vanda sem við glímum við? Á þessum spurningum mun ég tæpa í ræðu minni. Reyna að rýna í vandann og framtíðarsýnina, valdið og framkvæmdina, veiruna og fjármálaáætlun. Ég mun ræða það hvernig við skoðum ríkisreksturinn í heild og nýtum fjármunina betur og að kröftugt alþjóðasinnað atvinnulíf er forsenda farsældar okkar og undirstaða þess að við getum haldið úti öflugu velferðarkerfi.

Fjármál hins opinbera skipta okkur öll miklu máli. Þeim má í stórum dráttum skipta í tvennt. Annars vegar segja þau til um hve mikilla tekna skal aflað, hvernig og af hverjum. Þá má ekki gleyma þætti þeirra skulda sem stofnað er til og á hvaða kjörum. Hins vegar þarf að skoða til hvaða verkefna skal verja þeim fjármunum sem hið opinbera aflar. Þar kennir auðvitað margra grasa og má nefna þjónustu af ýmsu tagi, fjárfestingar í innviðum og stuðningsnet fyrir þau sem búa við þannig aðstæður til langs eða skamms tíma að geta ekki séð sér farborða. Viðfangsefnið má nálgast annaðhvort með því að ákveða fyrst hvaða þarfir á að uppfylla og afla fjár í samræmi við það eða ákveða fyrst hvaða tekna skuli afla og í framhaldi af því fyrir hvaða verkefnum þær eiga að duga. Í raunveruleikanum gerist þetta oftast með einhverri blöndu af þessum tveimur leiðum.

Ég hef þennan inngang að umfjöllun minni um fjármálaáætlun áranna 2021–2025 á þennan hátt vegna þess að það er einmitt þetta viðfangsefni sem ríkisstjórnin er að fást við með framlagningu hennar. Staðan er allsérstök við þessa fjármálaáætlun. Í fyrsta lagi er hún mjög seint á ferðinni, en hún var ekki lögð fram á réttum tíma í vor, eins og lög gera ráð fyrir. Það var réttlætt með því að efnahagshorfur vegna Covid væru svo óvissar að það væri ekki hægt. Um það má vissulega deila hvort ástæðan hafi verið réttmæt en það var engu að síður niðurstaðan. Í öðru lagi liggur fyrir að leggja þarf fram nýja fjármálaáætlun snemma á næsta ári, eftir örfáa mánuði. Í þriðja lagi eru kosningar eftir níu mánuði og þess vegna verður það auðvitað á borði nýrrar ríkisstjórnar að stokka upp spilin, gefa út nýja fjármálastefnu, fjármálaáætlun og leggja fram fjárlög fyrir árið 2022. Það liggur því í augum uppi að þessi fjármálaáætlun, sem við ræðum núna, hefur í raun lítið gildi nema að því er varðar komandi ár og þar eru það fjárlögin sem verða samþykkt á næstu dögum, vonandi á morgun, sem ráða ferðinni. Engu að síður birtist hér sú sýn sem ríkisstjórnin hefur á komandi mánuði og hvernig skuli fram haldið. Miðað við yfirlýsingar, sem vissulega hefur fækkað heldur upp á síðkastið, verður að ætla að ríkisstjórnin ali með sér þann draum að geta haldið áfram ríkisstjórnarsamstarfinu og þannig séu fjárlögin og fjármálaáætlunin vegvísir inn í framtíðina fyrir stjórnarflokkana.

Herra forseti. Það liggur auðvitað fyrir að mestu hvað hefur gerst á þessu ári í fjármálum ríkisins og hvernig þeim verður háttað á næsta ári. Sömuleiðis vitum við hvernig ríkisfjármálum hefur verið háttað í tíð þessarar ríkisstjórnar frá því að hún tók við. Viðreisn hefur margoft gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir að hafa spennt bogann allt of hátt við aukningu ríkisútgjalda á toppi langrar uppsveiflu í efnahagslífinu og að ríkisfjármálin hafi verið orðin ósjálfbær fyrir veirufaraldurinn. Um þetta ber ríkisreikningur ársins 2019 skýrt vitni. Þar varð um 70 milljarða sveifla til hins verra frá fjárlögum þess árs. Það er ekki nóg með að ríkisstjórnin hafi spennt bogann allt of hátt, hún hunsaði beinlínis öll varnaðarorð, m.a. frá okkur í Viðreisn, en kaus líka að horfast ekki í augu við allar þær blikur sem voru á lofti um framvindu efnahagsmála, skýr merki um samdrátt í efnahagslífinu. Hún getur því auðvitað engum kennt um nema sjálfri sér. Þetta hefur svo haft þau áhrif að við erum verr í stakk búin til þess að takast á við afleiðingar veirukreppunnar en ella. Þessu er nauðsynlegt að halda vel til haga þegar við ræðum ríkisfjármálin.

Þrátt fyrir það sem að framan er lýst stendur ríkissjóður að mörgu leyti vel í alþjóðlegum samanburði. Búið var að ná skuldahlutfalli verulega niður og gjaldeyrisvaraforðinn var mikill að vöxtum. Þess vegna er bæði rétt og skynsamlegt að ríkissjóður hafi gripið inn í atburðarásina, sem hófst í febrúar á þessu ári, af fullum þunga. Gripið hefur verið til margvíslegra ráðstafana, fimm fjáraukafrumvörp hafa verið lögð fram og gerðar margvíslegar lagabreytingar til þess að draga úr efnahagslegu og félagslegu höggi sem fjölskyldur og fyrirtæki hafa orðið fyrir. Margt af því sem gert hefur verið hefur tekist vel en annað miður. Við í Viðreisn sögðum strax í upphafi að við myndum styðja öll góð mál, veita aðhald og kappkosta að vinna í þinginu að úrbótum og lagfæringum. Við það höfum við staðið. Það sama verður því miður ekki sagt um ríkisstjórnina sem kaus að skreyta sig með sérstakri áherslu á samvinnu og samráð við Alþingi í stjórnarsáttmála sínum. Þau áform hafa legið rykfallin í skúffu í Stjórnarráðinu allar götur síðan, enda hefur ríkisstjórnin farið þá leið að hafna öllum breytingartillögum og ráðleggingum minni hlutans. Þó skal þess getið að í einstökum málum hafa nefndir þingsins náð að bæta málin frá því sem sagt var frá á hátimbruðum blaðamannafundum ríkisstjórnarinnar sem enginn hefur lengur tölu á.

Þegar við horfum til framtíðar verðum við að velta fyrir okkur hvernig við ætlum að takast á við það stóra verkefni að ná jafnvægi í ríkisbúskapnum, hvernig við ætlum að ná niður skuldum og á hve löngum tíma. Það getur verið dýrt að skulda og mjög erfitt að segja fyrir um hvert vaxtastigið verður til lengri tíma. Þeim mun meira sem maður skuldar, þeim mun meira þarf jú að borga í vexti. Þeim mun meira sem borgað er í vexti, þeim mun minna verður til ráðstöfunar af ríkisfé til að setja í arðbærar framkvæmdir, arðbæra innviði; hugsa um kynslóðir framtíðarinnar og gæta þess að hægt sé að veita alla þá þjónustu sem við erum sammála um að sé í verkahring hins opinbera. Ríkisstjórnin hefur verið frekar hljóð um þessa hlið málsins.

Markaðurinn, fylgirit Fréttablaðsins, fjallaði í gær um það hvernig hækkun ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa á síðustu mánuðum, sem má meðal annars rekja til minni eftirspurnar frá lífeyrissjóðum, gæti orðið til þess að íslenska ríkið yrði í verri stöðu til að rétta úr kútnum miðað við önnur vestræn ríki sem búa við betri vaxtakjör og sjá fram á minni skuldasöfnun vegna kórónukreppunnar. Það þýðir verri samkeppnisstöðu okkar sem þjóðar og að lífsgæði okkar skerðist í samanburði við nágrannalöndin. Nú mun ávöxtunarkrafa óverðtryggðra ríkisbréfa til tíu ára standa í 3,3% og hefur til að mynda hækkað um eitt prósentustig frá því um miðjan ágúst sl. Krafan er nú á svipuðu reki og hún var um miðjan janúar þrátt fyrir að Seðlabanki Íslands hafi lækkað stýrivexti um 2,25% á árinu og efnahagshorfur hafi snarversnað. Í Markaðnum segir enn fremur, með leyfi forseta:

„Ef gert er ráð fyrir að skuldir ríkissjóðs árið 2025, um 65 prósent af landsframleiðslu samkvæmt fjármálaáætlun, verði á þeim vöxtum sem ríkið fjármagnar sig á til tíu ára eins og staðan er í dag, um 3,3%, þá verður vaxtabyrði ríkissjóðs 2,14% af landsframleiðslu sem jafngildir 65 milljörðum kr. á ári. Til samanburðar verður vaxtabyrði Grikklands um 0,98% af landsframleiðslu, en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerir ráð fyrir að skuldahlutfall hins opinbera í Grikklandi verði um 166% árið 2025.“

Þessar tölur eru sláandi, 65 milljarðar í vexti á einu ári; 2% af landsframleiðslunni. Þetta er vægast sagt alvarleg staða. Hvað veldur þessum gríðarlega mun á kjörum sem ríkissjóði standa til boða miðað við aðra ríkissjóði í Evrópu, ríkissjóði sem er með enn meiri hlutfallslegar skuldir sem þarf að greiða af en greiðir mun lægri vexti — sem í dæmi Grikklands skuldar 166% af landsframleiðslunni en borgar tæplega 1% í vexti? Það eru 2% af landsframleiðslu okkar sem fara í vexti, við borgum yfir 3%. Svarið við þessu liggur í augum uppi — þó að helst megi ekki ræða það, eða menn vilji ekki ræða það. Þarna birtist Íslandsálagið svokallaða í allri sinni dýrð, enn ein birtingarmynd þess herkostnaðar sem felst í því að við búum við örmynt — íslensku krónuna. Íslandsálagið leggst einnig á vaxtakjör heimila og fyrirtækja í landinu.

Ég gerði þetta að umtalsefni við lok 2. umr. um fjárlögin þann 11. desember, og sagði, með leyfi forseta:

„Mig langaði líka til að nota tækifærið og minnast á einn kostnaðarlið sem hvergi kemur fram í fjárlagafrumvarpinu. Það er kostnaðurinn af því að við erum að reka einn minnsta gjaldmiðil í heimi. Það skiptir tugum milljarða fyrir ríkissjóð, fyrir Seðlabankann, fyrir heimilin, fyrir fyrirtækin í landinu. Þetta er kostnaður sem nemur trúlega á bilinu 150–200 milljörðum fyrir þjóðfélagið allt á hverju einasta ári. Þetta er eitt af því sem við verðum að ræða og taka til alvarlegrar skoðunar, hvort krónan sé okkur ekki allt of dýrkeypt.“

Já, herra forseti, þetta verðum við að ræða. Oft er sagt, þegar þessi mál ber á góma, að þetta sé bara nokkuð sem við verðum að búa við, okkar hagkerfi sé svo sveiflukennt og svo komi krónan til bjargar þegar syrtir í álinn og leiðrétti fyrri hagstjórnarmistök og komi í veg fyrir atvinnuleysi. Við þetta er auðvitað margt að athuga. Það blasa við nokkrar staðreyndir þegar við berum okkur saman við önnur Evrópuríki, eins og Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi ráðherra, bendir á í grein sinn í Fréttablaðinu í dag undir heitinu „Áhyggjuleysi þarfnast umræðu“. Hann bendir meðal annars á þetta með leyfi forseta:

„1. Ríkisstjórnir flestra annarra Evrópuþjóða taka lán í eigin mynt á nánast engum vöxtum.

2. Langtímavextir ríkissjóðs á innlendum markaði eru margfalt hærri.

3. Hagstæðum erlendum lánum fylgir gríðarleg gengisáhætta.

4. Spár um hagvöxt koma ríkissjóði í besta falli eftir tvö ár í sömu stöðu og 2019. Þá á eftir að skapa verðmæti til að borga allar nýju skuldirnar. Engin plön eru um þann viðbótarhagvöxt.

5. Að óbreyttu þýðir þetta skattahækkanir eða niðurskurð. Ríkisstjórnin segir að hvorugt komi til greina. Hvað þá? Meiri lán?“

Herra forseti Í fyrsta lagi segir þetta okkur að við verðum að beina kröftum okkar að því sem byggir undir langtímahagvöxt og lágmarkar líkurnar á því að áföll hafi jafn þungbær áhrif á okkur og við þekkjum frá hruni og við sáum gerast aftur núna, og höfum reyndar séð hvað eftir annað eins langt og við sjáum aftur í tímann. Auka verður fjölbreytni í atvinnulífinu, ekki síst verður að efla alþjóðageirann og hugvitsdrifnar útflutningsgreinar sem stuðla að sjálfbærum og góðum hagvexti til langs tíma. Það er eitt brýnasta verkefnið sem við stöndum frammi fyrir. Þó að rétt sé að fagna því ríkisstjórnin hafi aukið verulega fjármagn í nýsköpun og þróun þá þarf einfaldlega meira til. Allir ættu að vita að nýsköpunar- og þróunarstarfsemi er langhlaup, það tekur tíma að sjá árangur. Skammtímaráðstafanir duga því ekki. Menn leggja ekki út í ævintýri af því tagi að ætla að skapa eitthvað nýtt og leggja til þess starfskrafta sína og fé þegar menn sjá ekki lengra fram í tímann. Í þau skipti sem árangur næst eru nýsköpunarfyrirtækin líka fljót að flýja sveiflukennt umhverfi krónunnar. Hér verður að gera breytingu. Í öðru lagi eru tvær hliðar á krónunni. Hún veldur sveiflum og magnar þær. Og jú hún getur mildað höggið, en það gerir hún með aukinni dýrtíð og skertum kaupmætti. Þá blasir við að hún er ekki það töfratæki sem sumir halda fram þegar kemur að því að halda atvinnuleysi í skefjum. Í þriðja lagi er hún þrándur í götu nýsköpunar og raunar þorra atvinnurekstrar. Langar mig í því samhengi að vitna í stutta dæmisögu úr íslensku atvinnulífi sem birtist í Bakþönkum Fréttablaðsins í dag og er höfundur Thomas Möller. Hann segir, með leyfi forseta, í pistli sínum sem hann kallar „Saga af viðskiptum“:

„Fyrir nokkrum árum átti ég fyrirtæki sem flutti inn vörur frá Evrópu og seldi til fyrirtækja á Íslandi. Krónurnar sem komu frá vörusölunni voru notaðar til kaupa á evrum af bönkum til að greiða erlendu birgjunum. Bankarnir tóku þóknun fyrir að selja okkur evrurnar og millifæra þær til útlanda. Gengi krónunnar sveiflaðist mikið á þessum árum eins og það hefur gert á þessu ári og var gengisáhættan reiknuð inn í söluverð vörunnar til hækkunar. Svo hóf fyrirtækið að selja til útflutningsfyrirtækja á Íslandi. Þau vildu greiða fyrir vörurnar í evrum til að spara sér þóknanir bankanna við að skipta þeim í krónur. Þannig eignaðist fyrirtækið mitt evrur sem voru lagðar inn á evrureikning þess í bankanum. Nú gátum við greitt beint til birgjanna án milligöngu bankans með svipuðum hætti og við værum að greiða fyrir húsaleigu innan lands. Gengissveiflur voru úr sögunni og minni gengisáhætta þýddi að við gátum lækkað verð til kaupenda. Gjaldeyrisþóknanir til bankans lögðust af. Samkeppnisstaða fyrirtækisins batnaði og salan jókst. Hugsum okkur að öll fyrirtæki og fjölskyldur á Íslandi, ekki bara útflutningsfyrirtækin, notuðu evrur í sínum viðskiptum. Dæmið hér að ofan sýnir svart á hvítu að það er hægt að lækka kostnað við vöruviðskipti. Gera má ráð fyrir tugmilljarða sparnaði á ári fyrir almenning og fyrirtæki aðeins vegna skiptikostnaðar gjaldeyris auk mismunar á kaup- og sölugengi sem getur numið allt að 3,5% í kortaviðskiptum. Gæti það hugsanlega verið sýn okkar til framtíðar að nota alþjóðlegan gjaldmiðil í landinu?“

Ég læt þetta nægja að sinni um krónuna og þann vanda sem hún skapar og nauðsyn þess að við vindum bráðan bug að því að greina herkostnaðinn sem henni fylgir af fullri alvöru, undirbyggja umbyltingu í samsetningu atvinnulífsins og hefja vegferð sem leiðir til þess að við setjumst til borðs með ríkjum Evrópusambandsins, tökum upp evru og tökum virkan þátt í Evrópusamvinnunni sem verður æ mikilvægari (Forseti hringir.) fyrir Evrópu alla og ekki síst fyrir okkur Íslendinga.

Ég ætla að fá að ljúka máli mínu hér (Forseti hringir.) með því að segja: Að lokum verður að undirstrika að forsenda farsældar okkar er kröftugt alþjóðasinnað atvinnulíf (Forseti hringir.) sem getur drifið hóflegan en jafnan hagvöxt til langs tíma og þannig staðið undir öflugu velferðarkerfi. Til þess að það megi (Forseti hringir.) takast verður að skapa efnahagslegan stöðugleika og fyrirsjáanleika. Að þessum markmiðum viljum við í Viðreisn vinna.