151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[17:05]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla nú segja það hér að ég fyrirgef hv. þm. Jóni Steindóri Valdimarssyni að vera aðeins lengur í ræðustól vegna þess að ég hefði getað hafið ræðu mína þar sem hann endaði, um forsendur farsældar og atvinnulífs til framtíðar. Það er hverju orði sannara að sú farsæld mun byggja á nýsköpun, rannsóknum og fjölbreyttara atvinnulífi, sér í lagi þegar kemur að útflutningsatvinnugreinum og stöðugleika í efnahagsmálum.

Ég ætla að ræða hér ríkisfjármálaáætlun. Við erum í síðari umræðu um þingsályktunartillögu um fjármálaáætlun 2021–2025. Hv. þm. Haraldur Benediktsson, varaformaður hv. fjárlaganefndar, mælti fyrir nefndaráliti meiri hlutans og fór afar vel yfir meginefni tillögunnar, forsendur og breytingar. Ég ætla að reyna að forðast að endurtaka það sem hv. framsögumaður gerði mjög góð skil. Ég vil þó segja að við þær sérstöku aðstæður sem uppi eru, og hefur komið fram í máli allra sem hér hafa haft framsögu, eru kringumstæður einstakar. Þær einkenna ekki bara allt líf okkar um þessar mundir og efnahagslífið, heldur allt fjárlagaferlið. Til að mynda ræddum við hér ríkisfjármálaáætlun og fjárlagafrumvarp samhliða fjárlagaáætlun, sem á auðvitað að byggja á stefnu stjórnvalda, sem hún sannarlega gerir, en grundvallar jafnframt fjárlagafrumvarpið eins og við munum samþykkja það, væntanlega á morgun, ef allt gengur að óskum í starfsáætluninni.

Ég vil taka undir álit fjármálaráðs. Það er afar mikilvægt að koma fjárlagaferlinu sem fyrst af stað eins og lögin mæla fyrir um þó að vissulega höfum við í hv. nefnd lagt okkur fram um að gæta samræmis og taka þetta sem mest í þeirri röð sem æskilegt er. Ég ætlaði alls ekki að vera hér mjög lengi en ég vildi líka í þessu samhengi þakka allri hv. fjárlaganefnd fyrir góða vinnu, sérstaklega þegar kemur að þessu. Þegar allt raskast með þessum hætti og segja má að við tökum eiginlega á tveimur mánuðum það sem við gerum að öllu jöfnu á níu mánuðum segir það sig sjálft að það kallar á umburðarlyndi gagnvart því að þetta taki knappan tíma og sé kannski ekki alveg alltaf eins og við vildum hafa það. En við erum í þeirri stöðu og þurfum að vinna hratt og enginn hefur gefið eftir í þeim efnum.

Ég vil meina að tímafrávikin séu skiljanleg. Það sem á eftir kom þjappaðist allt saman í ljósi atburða og samþykkta Alþingis í kjölfarið um samkomudag þingsins, frestun áætlunar í ljósi óvissunnar og endurskoðun stefnunnar sem þurfti að afgreiða á undan, og Alþingi afgreiddi í september síðastliðnum. Venjulega ferlið er að stefna stjórnvalda ætti að halda í heilt kjörtímabil. Það er auðvitað sérstakt að við höfum endurskoðað hana í tvígang á þessu kjörtímabili og það er hárrétt sem fram hefur komið í umræðunni að í forgangsröðun ríkisstjórnarinnar hafi verið að bæta upp þá innviðaskuld sem byggst hafði upp þegar lögð var ofuráhersla á að greiða niður skuldir, sem kemur sér vel núna. Þá settum við okkur í spennitreyju, með jafnvægi í ríkisfjármálum í huga, eins fjármálaráð benti svo ágætlega á. Það mátti því lítið út af bregða. Við endurskoðuðum í fyrra skiptið ríkisfjármálaáætlun þegar flugfélag fór kollsteypu og við fundum ekki loðnu tvö ár í röð. Það gerði það að verkum að þær forsendur sem við byggðum á voru brostnar.

Segja má að meðferð fjármálareglna hafi verið afvirkjaðar í þeim tilgangi að veita raunverulegt svigrúm til að bregðast við neyðarstöðu. Lögin heimila þrjú ár og því til viðbótar höfum við tekið fjármálareglur úr sambandi í sex ár, eins og 7. gr. laganna mælir fyrir um. Það er kannski kjarninn í þessari áætlun. Mikið hefur verið rætt í dag um hversu mikið gildi áætlunin hafi og hún hefur auðvitað mjög mikilvægt gildi. Við reynum að halda okkur við stefnumörkunarferlið og hún hefur gildi að því leytinu að hún geymir þau áform sem við raungerum í fjárlögum inn í næsta ár. Það er auðvitað meginþunginn í þeim viðbrögðum sem birtust á milli umræðna í fjárlagavinnunni. Hægt er að taka undir það sem komið hefur fram, að frá 2022 og fram úr sé að hluta til framvinduútreikningur, en þó rætt í samhengi við það sem stefna á að fela í sér, sem eru heildarmarkmið um afkomu og hlutfall skulda. Margir hafa komið inn á það hér í dag og það er mikilvægt að fram komi í þessari áætlun hvenær og hvernig skuli stöðva skuldasöfnun.

Það er tvennt í þeim efnum; það er tímapunkturinn og það er hvaða ráðstafanir þarf að fara í. Mér finnst það sanngjarnt. Mér finnst í ljósi aðstæðna, í ljósi óvissu og í ljósi þess að næsta ár er kosningaár, rétt að segja að jafna skuli fjárhæðunum á tekju- og gjaldahlið. Fram að þeim tímapunkti eigum við síðan eftir að endurskoða fjármálaáætlun hæstv. ríkisstjórnar sem við ræðum hér. Svo verða kosningar. Þá mun auðvitað koma í ljós, eftir því hverju fram vindur, hvaða ráðstafanir það eru. En stærðirnar liggja fyrir, þ.e. hvert umfangið er. Það er mikilvægt, virðulegi forseti, að átta sig á því umfangi miðað við hvernig þetta raungerist. Nú horfum við á eina af fjórum myndum, dekkri sviðsmynd, sem birtar eru í frumvarpinu sjálfu. Þegar þingsályktunartillagan var lögð fram og sviðsmyndir birtar vorum við í upphafi þriðju bylgju kórónuveiru og sóttvarnaráðstafanir voru að herðast, sem hefur auðvitað um leið mikil áhrif á atvinnulíf og efnahagslíf. Og þessi dekkri sviðsmynd hefur raungerst.

Ég hef sagt það oft áður hér í umræðu um fjárlög og áætlanir hversu mikilvægt er að hafa hlutlægt álit fjármálaráðs við umfjöllun og afgreiðslu stefnu og áætlunar. Í því felst æskilegt aðhald og fjölmargar ábendingar sem gagnast til lengri tíma. Annað, sem er kannski erfitt að útskýra, er að ef maður les álitin við stefnu og áætlun, eins lögin mæla fyrir um, í gegnum tíðina og eftir því sem fram vindur, — eins og á þessu kjörtímabili þar sem við höfum endurskoðað stefnu í tvígang sem vonandi verður undantekning — er stuðningur af því þegar fram líða stundir að hafa þennan þráð í ákvörðunum og stefnumörkun stjórnvalda í hinu efnahagslega samhengi og hlutverki ríkisfjármálanna. Mér finnst það mikilvægt. Dæmi um þetta er ábending fjármálaráðs í upphafi um ríkisfjármál í jafnvægi við hjaðnandi hagvöxt og mikla áherslu á forgangsröðun til að byggja upp innviði en um leið að greiða niður skuldir. Við héldum áfram að greiða niður skuldir, auka ríkisútgjöldin verulega og forgangsraða til stærstu málaflokkanna, eins og lagt var upp með. Það er auðvitað hægt að staðfesta með tölum.

Ég ætla nú ekki að ekki að fara í þann talnaleik hér en finna má þennan þráð í álitum fjármálaráðs. Ég tek hér eitt dæmi og það er mikilvægt fyrir okkur á Alþingi að hafa það til viðmiðunar þegar við erum að fjalla um þessi mál. Það verður verðugt verkefni næstu ára og enn erfiðara eftir þennan efnahagsskell og kreppuna sem við upplifum, að takast á við það sem fjármálaráð kallar undirliggjandi veikleika á tekju- og gjaldahlið. Það verður bara að segjast eins og er að það verður áskorun inn í framtíðina. Við höfum spennt útgjaldabogann ansi hressilega en á móti kemur að stór hluti útgjaldaaukningar á milli ára hefur farið í fjárfestingar og í að byggja upp innviði, sem við trössuðum of lengi.

Ég bað um þriðja andsvar fyrr í dag og sá sem þá var í andsvari við mig er nú sestur í forsetastól. Í því andsvari ætlaði ég að koma inn á mjög mikilvægan hlut sem við ræddum, þ.e. forgangsröðun í ríkisfjármálum, valkosti og mat valkosta. Þar ætlaði ég einmitt að taka undir með hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni, þó að ég sé ekki alveg sammála honum um að áætlunin og stefnan séu gisk. Þetta er að mínu viti mjög vel rúmað, en við eigum svolítið í land með að byggja upp það sem við köllum, og hv. þingmaður er duglegur að tala um, fjárhagslegt mat á árangri. Ég vil meina að það hafi batnað með tíð og tíma en við höfum auðvitað bara verið með lög um opinber fjármál frá 1. janúar 2016.

Ég myndi segja að þessi áætlun sé unnin á ótrúlega skömmum tíma. Ég vil nota tækifærið og hrósa þeim sem hafa skrifað hana fyrir mjög faglegan og góðan texta til grundvallar. Hér eru mjög góðar rammagreinar og fyrir þá sem vilja glöggva sig vil ég benda á eina á bls. 131 sem fer einmitt inn á þennan þátt. Við þurfum þess vegna að kortleggja betur, taka í notkun stjórntæki og mælaborð og ígrunda hvaða mælikvarðar eigi við. Þeir eru mjög mismunandi eftir málefnasviðum og málaflokkum og þá ráðuneytum um leið. Síðan er það þetta sem fjármálaráð hefur bent okkur á í gegnum öll álit sín, mat á skilvirkni og fýsileika. Við þurfum í meira mæli að geta borið saman valkosti með skjótum og skilvirkum hætti, fengið valkostina hér á Alþingi til að geta veitt þetta aðhald og tekið ákvarðanir eða haft sterkari skoðun á ákvörðun stjórnvalda hverju sinni, hvort heldur í stjórn eða stjórnarandstöðu. Þessu vildi ég nú koma að.

Hins vegar finnst mér að sú fjármálaáætlun sem við horfum nú til og fjöllum um sé í raun útfærsla á stefnumörkun um viðbrögð við Covid. Hún er útfærð til grundvallar fjárlögum og meginbreytingin í uppfærslu á tölugrunni í henni er fyrst og fremst þessi — auðvitað er það alveg sérstakt að svo miklar breytingar hafi átt sér stað á milli umræðna á fjárlögum. Það geymir auðvitað allar aðgerðir til að styðja við efnahagslífið, fyrirtækin og heimilin. Þær er að finna í uppfærslunni á milli umræðna, í síðari umræðu um fjármálaáætlun.

Það er óhjákvæmilegt að leggja ofuráherslu á að koma okkur út úr þessu ástandi, eins og fjárlögin bera með sér og er grundvallað hér, þ.e. að viðhalda óbreyttum umsvifum hins opinbera þrátt fyrir mikið tekjufall, það er markmið, það er greypt í stein, og mæta því með aukinni lántöku og auknu svigrúmi. Í raun og veru er að mínu viti ekkert annað í boði, virðulegi forseti, en að beita ríkisfjármálunum af fullum þunga. Það réttlætir fullkomlega aukna skuldsetningu og tímabundnar mótvægisaðgerðir að auki, sem eru sérstaklega miðaðar að því að mæta ástandinu með öllum þeim aðgerðum sem við höfum rætt í tengslum við fjárlagafrumvarpið. Þannig að ég ætla ekki að fara yfir það enn og aftur, og í fjáraukalagafrumvörpum og sérstökum frumvörpum þessu tengt, sem eru þá gjarnan unnin í öðrum nefndum. Að lokum er það sem við nefnum sjálfvirka sveiflujafnara, þ.e. bæturnar og skattkerfið. Varðandi atvinnuleysisbætur erum við að lengja tekjutengt tímabil og standa við fyrirhugaðar skattkerfisbreytingar og skattalækkanir.

Þetta kemur allt á góðum tíma til að mæta þessari niðursveiflu og þeim djúpa dal sem við erum í. Það mun reyna á þanþol ríkisfjármálanna og það sést í aukinni skuldasöfnun. Við horfum til þess árið 2025 að fara í 60% af vergri landsframleiðslu, eins og það er reiknað hér miðað við lög um opinber fjármál og það er tvöfalt það mark sem reglurnar segja, eða 30%. Við vorum komin vel undir það og ég held að það svigrúm nýtist okkur vel núna.

En að lokum vil ég líka segja, virðulegur forseti, að auðvitað ríkir mikil óvissa um þróun efnahagsmála og opinberra fjármála og hversu hratt og mikið við getum aðlagað okkur þeirri stefnumörkun sem er útfærð hér. Því er aðhaldsráðstöfunum sem settar eru fram 2023–2025, skipt jafnt á tekju- og gjaldahlið. Það er óútfært en gefur mynd af því verkefni sem bíður. Hvernig getan til þessa verkefnis þróast verður hluti af því fjárlagaferli sem felst í áætlanagerðinni og endurskoðun hennar jöfnum höndum. Það eru ekki nema rúmir tveir mánuðir í að við endurskoðum þessa áætlun og getum þá vonandi gefið okkur aðeins meiri tíma til að ígrunda. Ýmislegt getur gerst á þeim tíma. Vonandi verður búið að bólusetja bara helst alla þjóðina en það eru einhverjar fréttir um að alla vega fyrstu skömmtum seinki eitthvað.

Auðvitað munum við stíga hratt upp úr þessu, virðulegi forseti. Ég get ekki séð annað. En þetta skall líka á mjög hratt og niðursveiflan var mjög skörp og kreppan er djúp. Það sjáum við á öllum tölum, til að mynda um atvinnuleysi. Hér er sett mark á að við virkjum fjármálareglur að nýju árið 2026. Ef hlutirnir ganga eftir eins og umfangið sem sett er fram í fjármálaáætlun getur það gengið eftir. Það er raunhæft. Sveiflan hér varð skarpari og dalurinn dýpri en hjá öðrum þjóðum, eins og Norðurlandaþjóðunum, sökum vægis ferðaþjónustunnar í atvinnulífi og gjaldeyrisöflun. Það er mikill munur á. Það sem ekki er skrifað í þessa áætlun eða fjárlög er að uppsveiflan verður skarpari og endurreisn atvinnulífsins kröftugri. Þá mun reyna mjög hratt á aðra þætti, önnur grunngildi sem ein veita leiðsögn meðan fjármálareglur eru ekki í gildi og það mun viðhalda stöðugleika í allt annars konar aðstæðum. Það er bara skammt undan ef hlutirnir ganga eftir sem við bindum vonir við.