151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[17:26]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun í síðari umræðu. Ég er ein af þeim sem eru skrifuð fyrir nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar. Framsögumaður nefndarinnar, hv. þm. Haraldur Benediktsson, hefur nú þegar gert grein fyrir nefndarálitinu. Ég ætla ekki að endurtaka það í ræðu minni en það eru nokkur atriði sem mig langar að draga fram hér í umræðunni.

Fyrst vil ég segja að ég tel þessa fjármálaáætlun algerlega nauðsynlega við þær aðstæður sem íslenskt samfélag er í núna og þá stefnu sem þar er mörkuð tel ég bæði vera skynsamlega og verða okkur til heilla í gegnum þetta erfiða tímabil sem við erum að ganga í gegnum núna. En við erum að miða við það og gerum ráð fyrir því að heildarafkoma hins opinbera geti orðið neikvæð um allt að 13% af vergri landsframleiðslu á næsta ári og hún geti einnig orðið neikvæð á árinu 2022. Það er auðvitað ekki skemmtilegt að segja það en algerlega nauðsynlegt við þessar aðstæður vegna þess að í kreppu eins og þeirri sem við erum í núna er það hlutverk ríkisins að taka á sig höggið. Það þýðir að safna skuldum en í sem takmarkaðastan tíma, því að það er þetta sem gerir það að verkum að við getum stutt við fyrirtæki og heimili í gegnum kreppuna. Þrátt fyrir að skatttekjurnar séu að dragast saman þá viðhöldum við öllum kerfunum okkar sem tryggja fólki þjónustu og framfærslu í sumum tilvikum og þar af leiðandi einnig auðvitað atvinnu. Þetta skiptir gríðarlegu máli í efnahagsaðstæðum sem þessum og má kannski segja að til þess sé ríkið að miklum hluta.

Viðfangsefni opinberra fjármála núna snýst ekki síður um hvernig best sé að komast út úr þeirri óvæntu kreppu sem leitt hefur af heimsfaraldrinum. Sett hafa verið markmið um að út úr efnahagsástandinu komi samkeppnishæft þjóðfélag þar sem velsæld byggist á kröftugu efnahagslífi og öflugum mannauði. Til þess að það sé hægt er lögð áhersla á að vernda þann árangur sem náðst hefur í heilbrigðis- og velferðarmálum. Í áætluninni er einnig boðað að halda áfram á þeirri braut sem við höfum verið á við að byggja upp ýmsa innviði samfélagsins og má þar nefna til að mynda eflingu menntakerfisins og heilbrigðisþjónustunnar sem og áherslu á nýsköpun og rannsóknir sem og stórátak í samgöngumálum.

Í upphafi kjörtímabilsins var ljóst að fara þyrfti í fjárfestingar vegna þess að við höfðum ekki verið að sinna innviðunum nóg sem samfélag fram að því. Við núverandi aðstæður bætist enn frekar inn í fjárfestingarstigið, það verður hækkað frá því sem byrjað var með. Þetta skiptir allt saman máli til þess að samfélagið haldist gott í gegnum kreppuna og líka til að viðnámsþrótturinn verði mikill þegar landið fer aftur að rísa. Á næsta ári er gert ráð fyrir því að hagkerfið taki við sér, en við verðum auðvitað að sjá hvert faraldurinn leiðir okkur. Við byggjum líka á þeim bestu spám sem við höfum hverju sinni og ég held að það sé ástæða til þess að vera bjartsýn. En bæði fjármálastefnan og ekki síður fjárlögin, sem við munum samþykkja að öllum líkindum á morgun eða annað kvöld, eru til að styðja við það að íslenskt samfélag geti komist sem sterkast út úr þeirri kreppu sem þessi heimsfaraldur leiðir af sér þar sem við stöndum vörð um velferðarsamfélagið og styrkjum það hreinlega þar sem þarf og er nauðsynlegt.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa uppi fleiri orð um þessa áætlun en ítreka það og segi að ég tel að hún sé gríðarlega mikilvæg og hárrétt viðbrögð við því ástandi sem við erum að fara í gegnum núna og sjáum fram á á næstu árum.