151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[17:45]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Það er nú langt liðið á þessa umræðu og hún fer auðvitað fram við sérkennilegar aðstæður, ekki bara að því leytinu til að við búum við hin sérstöku skilyrði sem við þekkjum öll heldur fengum við ógóð tíðindi í morgun um að bólusetningum kynni að seinka og að lengur þyrfti að búa við ýmiss konar takmarkanir vegna sóttvarnaástæðna en vonast hafði verið til.

Þegar mál eru þannig vaxin er hugsanlegt að þessar aðstæður kippi grundvellinum undan þeim mikilvægu málum sem snúa að fjármálum ríkissjóðs. Núna á síðustu dögum fyrir jól ætla ég að einbeita mér að einum málaflokki sérstaklega en það eru málefni eldri borgara. Það sem virðist blasa við er að þegar litið er til málefna eldri borgara, annars vegar framfærslu og hins vegar búsetumála, virðist vera um að ræða svo alvarlega vanfjármögnun á framlögum úr ríkissjóði að með vissum hætti má segja að það feli í sér eins konar kerfislægan halla á ríkisfjármálunum. Ég ætla að rökstyðja þetta í því sem hér fer á eftir.

Á þetta reynir auðvitað fyrst og fremst í framlögum úr ríkissjóði til almannatrygginga annars vegar og hins vegar til hjúkrunar- og dvalarheimila eldra fólks. Fyrst er til að taka að þegar litið er á hversu langt er gengið varðandi þær skerðingar, sem oft eru ræddar hér og í samfélaginu, á greiðslum almannatrygginga til þeirra sem njóta slíks réttar, hvort sem er vegna aldurs, örorku eða endurhæfingar, kveður svo rammt að þeim að í raun og veru sætir undrun.

Herra forseti. Ég beindi fyrirspurn til hæstv. félags- og barnamálaráðherra um þessar skerðingar þar sem ég spurði hversu mikið lífeyrir almannatrygginga skertist vegna atvinnutekna, vegna greiðslna til lífeyrisfólks úr lífeyrissjóðum og vegna tekna annarra en atvinnutekna og greiðslna úr lífeyrissjóðum. Svarið er á þingskjali 842 á 150. löggjafarþingi, þ.e. í fyrra, og tölurnar miðast við árið 2018. Þar kemur m.a. fram að þessar tekjur skerða greiðslur úr almannatryggingum svo nemur tugum milljarða. Til dæmis kemur fram að lífeyrissjóðstekjur ellilífeyrisþega skerða greiðslur úr almannatryggingum um ríflega 34 milljarða og greiðslur til örorkulífeyrisþega úr almannatryggingum skerða þær um hátt í 9 milljarða. Við erum að tala um alveg geipilega háar tölur. Þegar allar þessar skerðingar koma saman erum við að tala um í kringum 55 milljarða. Stærsta talan sem þarna liggur undir er sú sem ég hef áður nefnt en það eru skerðingar vegna tekna eða vegna greiðslna úr lífeyrissjóði. Við skulum muna að greiðslur úr lífeyrissjóði eru byggðar á iðgjöldum sem eru greidd meðan fólk er á starfsaldri og eru settar saman annars vegar af greiðslu hins vinnandi manns og hins vegar launagreiðanda.

Lítum örlítið á söguna, herra forseti. Í fyrsta lagi eiga almannatryggingar sér afar djúpar rætur í íslensku samfélagi. Við getum nefnt tvö ártöl, 1936 og 1946 og síðan 1969 þegar hið almenna lífeyrissjóðakerfi sem við þekkjum var sett á laggirnar. Það var þá hugsað sem viðbót við almannatryggingarnar sem rekja má aftur til hvort sem er 1946 eða 1936. Þegar við lítum til baka sjáum við fyrir okkur að á þessum tíma, 1969, þegar stofnað var til lífeyrissjóðanna á grundvelli kjarasamninga átti það sér stað við mjög erfiðar aðstæður og ljóst að ekki var um neinar kjarabætur að ræða. Þetta var á þeim tímum sem menn voru að takast hér á við aflasamdrátt annars vegar og verðfall á erlendum mörkuðum hins vegar. Þá var var talað um greiðslur úr almannatryggingum og var það sem kallað var grunnlífeyrir. Árið 1971 gerist það að við bættist nýr flokkur sem var tekjutryggingin. Hún var ætluð þeim sem höfðu lægstar tekjur. Hana fengu ekki allir. Hún skertist ef fólk hafði tekjur. En um 40 ára skeið var litið þannig á, herra forseti, að grunnlífeyrir almannatrygginga væri ósnertanleg fjárhæð.

Framvinda sögunnar í nýlegum tíma er sú að árið 2009, í fjármálahruninu sem varð hér, var gripið til þess neyðarúrræðis af hálfu þeirra tveggja flokka ríkisstjórnar sem þá sat, Samfylkingar og Vinstri grænna, að skerða grunnlífeyrinn. Það var þá tímabundin neyðaraðgerð og skerðingin féll niður fjórum árum síðar, 2013. Það sem gerist í framhaldinu er að með lögum nr. 9/2017, um breytingu á lögum um almannatryggingar, var gerð sú breyting að sérstaklega var kveðið á um skerðingu ellilífeyris vegna greiðslna úr skyldubundnum, atvinnutengdum lífeyrissjóðum. Það er náttúrlega mjög mikil breyting frá því sem verið hafði um áratugaskeið. Frá þeim tíma sem þessi lög tóku gildi, sem var 1. mars 2017, hafa greiðslur úr skyldubundnum lífeyrissjóðum lækkað ellilífeyri um 45% sem voru fyrst umfram 25.000 kr. á mánuði en þessi viðmiðunarfjárhæð var síðan hækkuð upp í 100.000 kr. á mánuði. — Nei, herra forseti, afsakið, þá er ég að tala um tekjur vegna atvinnu. Þessi fjárhæð, 25.000 kr. á mánuði vegna greiðslna úr lífeyrissjóðum, hefur staðið frá því að þessi lög tóku gildi 1. mars 2017. Með þessu var því ákveðið að allar greiðslur úr lífeyrissjóði umfram 25.000 kr. skertu greiðslur úr almannatryggingum um 45%.

Herra forseti. Sú framkvæmd að taka upp þessa skerðingu á greiðslum gengur gegn því fyrirheiti sem launafólki hefur verið gefið áratugum saman á Íslandi og stóð óhaggað þangað til þessi tímabundna breyting var gerð 2009 vegna fjármálahruns. Frá árinu 2017, þetta er tiltölulega nýtilkomið, hefur skerðingin staðið. Það er auðvitað mjög alvarlegt inngrip. Í raun og veru er haggað þeirri grundvallaruppbyggingu sem felur í sér þriggja stoða kerfi sem er í fyrsta lagi í almannatryggingar, í öðru lagi skyldubundnir lífeyrissjóðir og í þriðja lagi séreignarsparnaður. Almannatryggingunum er eiginlega bara kippt út þrátt fyrir að lífeyrissjóðirnir ættu að koma til viðbótar.

Allt frá því að lífeyrissjóðirnir voru settir á laggirnar með kjarasamningum 19. maí 1969 kom aldrei alvarlega til álita að lífeyristekjur skertu grunnlífeyri almannatrygginga. Og þegar þetta er athugað, eins og kemur fram í svari hæstv. félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá mér um hvaða fjárhæðir sé um að tala varðandi þessar skerðingar, erum við að horfa upp á tugi milljarða, hvorki meira né minna. Það þýðir að það fyrirheit sem þarna var gefið er ekki virt. Þvert á móti er ríkissjóður í raun og sanni gersamlega háður því að taka til sín umtalsverða fjármuni frá fólki sem það taldi sig eiga rétt á vegna réttinda sinna í lífeyrissjóði. Þess vegna leyfi ég mér að segja það, frú forseti, að ríkissjóður er vanfjármagnaður að þessu leytinu til. Hann er að sækja þarna fé sem gengur gegn því fyrirheiti sem fólki var gefið og var staðið við áratugum saman þangað til fyrir skemmstu.

Um þetta mætti hafa miklu, miklu, miklu fleiri orð en vegna þess hvernig tími mér er skammtaður get ég ekki dvalið lengur við þetta mikilvæga mál. Ég vil samt sem áður vekja athygli á því að fólk stendur frammi fyrir því sem heitir mjög háir jaðarskattar. Þegar saman fer annars vegar þetta skerðingarhlutfall á greiðslum úr lífeyrissjóði, þessi 45%, og síðan tekjuskattur er sýnt fram á það í nýlegri álitsgerð prófessors Ragnars Árnasonar að fólk stendur frammi fyrir jaðarskatti upp á 73%, þ.e. einhleypingar en sambýlisfólk upp á 65%. Það þýðir að þessum þjóðfélagshópi er gert að standa frammi fyrir miklu meiri sköttum og skerðingum á tekjum sínum en öðru fólki. Því er kastað fram af hálfu Ragnars Árnasonar að jafnvel megi líta þannig á að fyrir a.m.k. ákveðna hópa, þ.e. þá sem lægstar hafa tekjurnar, sé ávöxtun iðgjalda í lífeyrissjóðunum beinlínis neikvæð.

Ég vil vekja athygli, frú forseti, á því að þegar við erum að tala um kjör eldra fólks hafa grunnupphæðir greiðslna almannatrygginga dregist aftur úr launaþróun. Ég vil í því sambandi vísa sérstaklega til umsagnar til fjárlaganefndar um fjárlögin 2021. Þá segir höfundur, Finnur Birgisson sem er sérfræðingur í almannatryggingum, með leyfi forseta:

„Það er ómótmælanleg staðreynd að grunnupphæðir lífeyrisgreiðslna frá TR hafa verið að dragast aftur úr launaþróun á undanförnum árum. Þetta hefur gerst þrátt fyrir að í 69. grein almannatryggingarlaga sé kveðið á um að taka skuli mið af launaþróun við árlegar ákvarðanir um breytingar á grunnupphæðum almannatrygginga.“

Þetta er rökstutt með tölum og línuritum. Þessa umsögn er að finna á vef Alþingis.

Hafandi fjallað um þessi kjaramál vil ég víkja örstutt að hinum þættinum sem ég nefndi í upphafi sem eru búsetumálin. Þá vitna ég í umsögn Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu um það mál sem við ræðum hér, fjármálaáætlun. Þar segir varðandi málefnasviðið sem fjallað er um þar, hjúkrunar- og dagdvalarrými, með leyfi forseta:

„… þá eru helstu annmarkarnir þeir að ekki er fjallað sérstaklega um þessar stoðir heilbrigðiskerfisins í heilbrigðisstefnu stjórnvalda.“

Í þessari umsögn er rökstutt mjög ítarlega að í fjármálaáætlun sé ekki verið að tryggja með fullnægjandi hætti rekstrargrundvöll þeirra hjúkrunarrýma og dagdvalarrýma sem þegar eru í rekstri sem og rekstrargrundvöll nýrra rýma. Það er rökstutt með því að engin styrking sé á rekstrargrundvelli stofnana. Það er ekki tekið mið af fjölgun og rekstri dagdvalarrýma, það er ekki fjárveiting vegna aukinnar hjúkrunarþyngdar og því er haldið til streitu að gera aðhaldskröfu. Með leyfi forseta segir í umsögninni:

„Eins og hér hefur verið rökstutt gera SFV alvarlegar athugasemdir við fjármögnun málefnasviðs nr. 25 eins og hún er sett fram í fjármálaáætluninni og hvetja stjórnvöld og alþingismenn til að endurskoða hana.“

Samandregið segir í þessari umsögn, með leyfi forseta:

„Auka þarf gegnsæi við gerð fjármálaáætlunar […] Stefnumótun á málefnasviði nr. 25 er ábótavant og ekki liggur fyrir sýn stjórnvalda á hlutverk og þjónustustig inni á hjúkrunarheimilum og dagdvölum. Yfirfara þarf fjármögnun fjármálaáætlunarinnar á málefnasviði nr. 25 í heild sinni. Veita þarf auknum fjármunum í styrkingu þess rekstrar sem þegar er til staðar og fellur undir málefnasviðið, líkt og kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Einnig þarf að endurskoða fjármögnun þeirra nýju markmiða og aðgerða sem lögð eru til í áætluninni.“

Frú forseti. Þetta þýðir samandregið að þegar við erum að fjalla um mál sem lúta að framfærslu eldra fólks og annarra sem njóta greiðslna úr almannatryggingum og við búsetu er alvarleg vanfjármögnun. Ég leyfi mér að kalla það kerfislægan halla á ríkissjóði. Fjármálaáætlunin sem hér liggur fyrir ber með sér að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna ætli ekki að bæta kjör eldri borgara á næstu árum. Það er auðvitað afar miður, frú forseti, en skilaboðin í fjármálaáætluninni eins og hún liggur fyrir eru alveg skýr hvað þetta varðar.