151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[18:05]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Frú forseti. Ég kem hingað upp í aðra ræðu þar sem mér tókst ekki að koma að í fyrri ræðu nokkrum mikilvægum atriðum sem er nauðsynlegt að komi fram og má líta á sem framhald minnar fyrri ræðu.

Það hefur áður komið fram að ríkisstjórnin valdi þá leið að halda stjórnarandstöðunni frá öllum undirbúningi og stefnumótun um viðbrögð þegar veirufaraldurinn hóf innreið sína. Þess í stað hefur hún lagt áherslu á að kynna áform sín á fallegum blaðamannafundum. Þá leið hefur hún valið og þá væntanlega gleymt þeirri ríku áherslu sem lögð var á aukið samráð við Alþingi í stjórnarsáttmálanum, en það var auðvitað þá og sáttmálinn hefur a.m.k. að því leyti fallið í gleymskunnar dá. Það finnast þess fá ef nokkur merki að tillögur stjórnarandstöðunnar hafi ratað inn í málatilbúnað ríkisstjórnarinnar. Vissulega, og því skal ekki neitað, hafa frumvörp í stöku tilfellum stórbatnað í meðförum þingsins. Í þingnefndunum hafa verið gerðar margvíslegar góðar lagfæringar og þar hefur stjórnarandstaðan ekki látið sitt eftir liggja. Það hefði óneitanlega flýtt fyrir og verið til bóta að tryggja fullt pólitískt samráð á öllum stigum. Sama gildir um fjárlögin og fjármálaáætlunina sem nú eru til lokaafgreiðslu hér í þinginu.

Frú forseti. Fjármálaáætlunin er ekki margmál um hvernig ná á tökum á ríkisrekstrinum á næstu misserum og árum. Þar kemur þó fram að aðhald verði um 43 milljarðar á ári árin 2023–2025. Það er hins vegar algjörlega óútfært. Engin dæmi eru nefnd eða hugmyndir viðraðar. Talan 43 milljarðar virðist nánast vera einhvers konar afstemmingarstærð til að áætlunin gangi upp. Það er slæmt. Við þessar aðstæður er afar brýnt að skoða vandlega allan ríkisrekstur, hvar hægt er að gera betur, hvernig hægt er að nýta fjármunina betur. Sú skoðun þarf að hefjast strax svo unnt verði að hefjast handa um leið og veirustorminum slotar.

Við erum öll sammála um að gera hlutina vel og veita góða þjónustu og hægt er að ná þeim árangri með mörgum aðferðum og eiga mismunandi leiðir við eftir því hvað í hlut á. Við í Viðreisn erum sannfærð um að þarna sé eftir miklu að slægjast. Við eigum að vera óhrædd við að velta fyrir okkur hver verkefni ríkisins eru. Er allt sem ríkið og hið opinbera fæst við bráðnauðsynlegt? Ef það er bráðnauðsynlegt getum við spurt okkur: Er nauðsynlegt að ríkið eða opinberir aðilar sinni því? Eða er hægt að sinna þeim verkefnum með einkarekstri? Jafnvel er hægt að velta fyrir sér hvort hægt sé að sinna þeim með einkarekstri sem ríkið stendur straum af kostnaði við að einhverju eða öllu leyti, eins og mörg dæmi eru um, t.d. í heilbrigðisþjónustunni. Það er dæmi um þar sem einkarekstur er umtalsverður hluti af þeirri þjónustu en mætti svo mjög gjarnan vera meiri og mörg tækifæri eru á því sviði. Auðvitað mun alltaf standa eftir alls konar kjarnastarfsemi og alls konar önnur starfsemi sem við erum flest sammála um að eigi að leysa af hinu opinbera og eru engar deilur um það. En við verðum að vera órög við að skoða þessa hluti vel og breyta því sem hægt er að breyta okkur öllum til hagsbóta. Við í Viðreisn teljum þetta eitt af stærri og vandasamari viðfangsefnum komandi ára sem þurfi að taka föstum tökum.

Frú forseti. Ég vil halda því til haga að ríkissjóður stendur að mörgu leyti vel í alþjóðlegum samanburði. Búið var að ná skuldahlutfalli verulega niður og gjaldeyrisvaraforðinn var mikill að vöxtum þegar veiran nam hér land. Þess vegna er bæði rétt og skynsamlegt að ríkissjóður hafi gripið inn í atburðarásina sem hófst í febrúar á þessu ári af fullum þunga.

Frú forseti. Ég hef stiklað á nokkrum grundvallaratriðum í ræðum mínum í dag um fjármálaáætlunina sem við í Viðreisn teljum að við verðum að takast á við á næstu árum og verður að vera hægt að leysa með farsælum hætti. Ég hef nefnt krónuna og herkostnaðinn af henni, sveiflur og hátt vaxtastig og mikilvægi evrunnar og aðild að Evrópusambandinu í því samhengi. Ég hef nefnt að lántaka ríkisins erlendis er áhættusöm vegna gengissveiflna þó að vextir þar séu lægri en innlendir vextir, og að vaxtakostnaður hér innan lands fer hækkandi. Allt leiðir þetta til þess að hlutfall vaxta verður hér mun hærra miðað við landsframleiðslu en í öðrum Evrópuríkjum. Ég hef einnig nefnt lausatök ríkisstjórnarinnar og að ríkisfjármálin hafi verið orðin ósjálfbær fyrir kreppuna vegna þess að varnaðarorð okkar voru hunsuð og ekki tekið mark á þeim blikum sem voru á lofti í efnahagsmálum og virtust flestum ljósar öðrum en ríkisstjórninni og ríkisstjórnarflokkunum.

Að lokum verður að undirstrika enn einu sinni að forsenda farsældar okkar er kröftugt, alþjóðasinnað atvinnulíf sem getur drifið góðan en jafnan hagvöxt til langs tíma og þannig staðið undir öflugu velferðarkerfi. Á þeim vettvangi þurfum við að hlúa vel að nýsköpun, tækni og vísindum og hugsa til langs tíma vegna þess að þetta er það sem við verðum að byggja á til framtíðar til að ná þeim markmiðum sem við viljum öll svo gjarnan ná um aukna farsæld og hagsæld okkur öllum til handa. En til að þetta allt saman sé hægt verður að skapa efnahagslegan stöðugleika og fyrirsjáanleika. Að þeim markmiðum viljum við í Viðreisn vinna.