151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[18:15]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Frú forseti. Hér hafa átt sér stað umræður um fjármálaáætlun fyrir árin 2021–2025 sem áætlað er að endurmeta og koma síðan fram með það endurmat strax í mars næstkomandi, þannig að það eru við ansi sérstakar aðstæður sem við ræðum fjármálaáætlunina núna því að í ofanálag er hún lögð fram við hinar verstu og dekkstu horfur í efnahagsmálum sem við höfum þurft að glíma við og við aðstæður þar sem atvinnuleysi er því miður í sögulegum hæðum. Atvinnuleysistölur hafa ekki verið hærri um áratugaskeið og því miður eru miklar líkur á því að þær versni enn frekar. Alvarlegar aðstæður ríkja á vinnumarkaði og eru horfurnar gríðarlega dökkar, bæði fyrir veturinn og langt fram á næsta ár. Þó að fregnir af bóluefni og bólusetningum veki okkur öllum von í brjósti þá er það ekki endilega fast í hendi eða töfralausn á efnahagskrísunni sem við eigum því miður eftir að bíta úr nálinni með löngu eftir bólusetningarnar.

Eins og segir, með leyfi forseta, í umsögn fjármálaráðs er gert ráð fyrir að skuldir hins opinbera nánast tvöfaldist næstu fjögur árin. Auðvitað er það ekki einsdæmi heldur er skuldaaukning Íslands í samræmi við þróun víða um heim vegna viðbragða við efnahagslegum afleiðingum kórónuveirufaraldursins. Skuldir sem hlutfall af landsframleiðslu fóru yfir markmið laganna um opinber fjármál á yfirstandandi ári, sem er skiljanlegt, en það er athyglisvert hversu snemma skuldareglan var brotin en það var á fyrri hluta ársins þegar hún var tekin úr sambandi við endurskoðun fjármálastefnu sem samþykkt var nýverið.

Einnig er vert að staldra við orð fjármálaráðs í umsögn sinni um að þrátt fyrir að ráðið hafi ekki verulegar eða alvarlegar áhyggjur af sjálfbærni skuldanna segir ráðið samt sem áður að ljóst sé að skuldaaukningin geti ekki verið takmarkalaus og hallarekstur hins opinbera þurfi að stöðva á réttum tímapunkti. Fjármálaráð hefur í umsögn sinni vissar áhyggjur af því að af áætluninni megi ráða að þegar sértækum aðgerðum ljúki verði afkoman áfram neikvæð vegna undirliggjandi misræmis milli tekjuöflunar og útgjaldavaxtar. Með öðrum orðum, ekki er víst að afkomubætandi aðgerðir sem boðaðar eru á síðari hluta tímabils áætlunarinnar dugi til að ná jafnvægi í afkomunni. Þá er umhugsunarefni, svo að ekki sé fastar að orði kveðið, hversu mikillar tregðu hægt er að greina í tillögum ríkisstjórnarinnar til tekjuöflunar, m.a. í gegnum meiri græna skattlagningu eða í tillögum um skattafslátt til hinna efnameiri hópa í samfélaginu, sem eru ekki þeir samfélagshópar sem munu þjást mest í efnahagskreppunni núna.

Frú forseti. Það er nefnilega ljóst að efnahagsþrengingarnar vegna kórónuveirufaraldursins munu bitna mismikið á þjóðfélagshópum. Um það vitna innlendar rannsóknir, gögn og tölur og varnaðarorð alþjóðastofnana. Ég hef áður vitnað í orð Davids Malpass, bankastjóra Alþjóðabankans, og ég mun gera það aftur, en varnaðarorð hans og bankans spá því að um 110–150 milljónir manna muni falla í sárafátækt árið 2021 sem afleiðingar af efnahagskreppunni vegna kórónuveirufaraldursins. Það er óhugnanleg spá sem þjóðir heims verða að taka alvarlega og bregðast við af öllu afli og því miður, frú forseti, sýna innlendar kannanir og rannsóknir að Ísland er ekki undanþegið hættu á að kreppan vegna Covid-19 geti aukið ójöfnuð og ýtt verulega undir félagslega einangrun ákveðinna samfélagshópa.

Þrír hópar íslensks samfélags eru nú meir útsettari fyrir ójöfnuði og hættunni á því að verða bráð meiri ójöfnuðar en aðrir hópar vinnumarkaðarins og eru þar með í meiri hættu en aðrir að verða fátækt að bráð. Þetta eru konur, fólk af erlendum uppruna og ungt fólk. Tekjulágt fólk er svo fjórði hópurinn sem er í gríðarlega mikilli hættu á að falla í sára fátæktargildru, sem getur verið gríðarlega erfitt fyrir fólk að ná sér upp úr. Tölur sanna þetta, enda hefur orðið hrun í þeim atvinnugreinum sem þessir samfélagshópar eru fjölmennastir í. Fólk af erlendum uppruna hefur verið afar fjölmennur hluti af þeim sem hafa mannað störf í ferðaþjónustunni undanfarin ár en staða fólks í þeirri atvinnugrein, eins og við vitum öll, hefur snarversnað síðustu mánuði. Atvinnuþátttaka kvenna hefur líka dregist verulega saman vegna Covid-19 eins og tölur Hagstofu sýna. Konur hafa í meira mæli en karlar starfað við þjónustustörf en kreppan nú kemur ákaflega illa við þær greinar. Að auki sýna innlendar rannsóknir að heimavinna hefur verri áhrif á konur á vinnumarkaði en karla. Þær eru líklegri en karlar sem vinna nú heima til að axla meiri ábyrgð á heimilisstörfum sem kemur niður á framleiðni þeirra. Konur í fræðasamfélaginu hafa samkvæmt könnunum skilað inn umtalsvert færri fræðigreinum í Covid-19 en karlar í fræðasamfélaginu. Ungt fólk er líka í viðkvæmri stöðu nú en áður. Þar skiptir máli hátt hlutfall ungs fólks í þjónustustörfum. Atvinnuleysistölur sýna líka mikinn mun á atvinnuleysi ungs fólks miðað við þau eldri. Þessi þróun er því miður enn einn vitnisburðurinn um þróunina sem hefur verið í gangi löngu fyrir heimsfaraldurinn, sem er sú að bæði tekjubil og eignabil á milli ungs fólks og þeirra eldri hefur breikkað mikið undanfarin ár og áratugi. Ójöfnuður kynslóðanna heldur því áfram að aukast en Covid-19 verður vatn á myllu slíkrar þróunar ef við náum ekki að sporna við þessari óheillaþróun.

Frú forseti. Ólíkt aðstæðunum sem ríktu á vinnumarkaði fyrir hrun íslensku bankanna haustið 2008 hafði atvinnuleysi farið vaxandi á síðasta ári, árið 2019, og langtímaatvinnulausum, þ.e. einstaklingum sem hafa verið án atvinnu í meira en ár, hafði farið fjölgandi. Í september síðastliðnum voru 18.000 manns atvinnulausir og þar af 3.000 manns langtímaatvinnulausir. Á sama tíma hefur ungmennum og ungu fólki sem hvorki eru með atvinnu né í námi fjölgað. Það er ljóst að skýrra aðgerða er þörf til að afstýra að atvinnuleysi leiði til enn frekari greiðsluvanda heimilanna, fátæktar og aukins ójöfnuðar með tilheyrandi kostnaði fyrir samfélagið.

Mikilvægt er að hafa í huga að 40% atvinnulausra er fólk af erlendum uppruna. Þessi hópur býr að hluta við verri aðstæður vegna þess að sá hópur býr að stórum hluta í leiguhúsnæði og hefur ekki haft úrræði sambærileg við eigendur húsnæðis, t.d. greiðsluhlé, og ekki notið á sama hátt góðs af lækkun vaxta á húsnæðislánum. Skilvirkasta leiðin til að styðja við atvinnuleitendur er hækkun grunnbóta atvinnuleysistrygginga ásamt því að lengja bótatímabilið til að mæta fyrirséðri aukningu langtímaatvinnuleysis fólks. En því miður er ekki að finna í aðgerðum ríkisstjórnarinnar sértækar aðgerðir sem miða við þennan hóp, fólk af erlendum uppruna, þrátt fyrir að þessi hópur sé 40% þeirra sem eru atvinnulausir.

Frú forseti. Varla þarf að minna á það, en ljóst er að það verður að gera ávallt og stöðugt, að draga þarf lærdóm af síðustu kreppu og neikvæðri reynslu þeirra þjóða sem réðust í niðurskurð og veikingu félagslegra innviða. Því efnahagsáfalli sem nú gengur yfir má ekki mæta með niðurskurði í rekstri hins opinbera eða afkomu krafna á okkar grunnkerfi á borð við heilbrigðiskerfið. Í fyrsta lagi þarf að bæta upp fyrir það 34 milljarða kr. árlega tekjutap sem ríkissjóður hefur orðið fyrir vegna ótímabundinna skattalækkana ríkisstjórnarinnar með því að afla tekna með öðrum hætti því að núverandi tekjugrunnur er ekki sjálfbær. Í öðru lagi er mikið af starfsfólki í opinberri þjónustu undir miklu álagi vegna heimsfaraldursins og hafði áður en hann hófst verið undir miklu vinnuálagi vegna langvarandi aðhalds- og niðurskurðarkröfu í kjölfar efnahagshrunsins fyrir rúmum áratug. Í þriðja lagi er mikil þjónustuþörf í heilbrigðis- og félagskerfinu vegna heimsfaraldursins og áhrifa hans á líkamlega og andlega heilsu almennings.

Við þurfum að styrkja öryggisnetin okkar fremur en að ráðast í niðurskurð og aðhaldskröfu og aðgerðir sem við vitum öll að mun dýpka og lengja kreppuna. Því verðum við að mæta þessum samdrætti með svigrúmi opinberra fjármála. Það merkir að skuldum ríkisins verði leyft að aukast en þó ekki umfram 59% á árinu 2025, en það markmið kallast hins vegar á við afkomubætandi aðgerðir af hálfu stjórnvalda upp á 35–40 milljarða á ári fyrir árin 2023–2025. Verði efnahagslegur bati hægari en samkvæmt forsendum verður þörfin enn meiri en þetta og raunveruleg hætta er á að slík sviðsmynd raungerist. Og þá þurfum við öll að halda vöku okkar og standa vörð um að velferð og grunnþjónusta verði ekki notaðar sem afkomubætandi aðgerðir í ríkisfjármálum heldur verði niðurgreiðsla skulda á forsendum kröftugrar viðspyrnu.

Frú forseti. Mig langar að víkja að atvinnumálunum því að það er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að mótuð verði sértæk stefna í atvinnumálum hér á landi, skýr stefna í atvinnumálum. Hún er bráðnauðsynleg við núverandi aðstæður til að styðja við efnahagsbata og mæta þeim áskorunum, ekki bara út af Covid-19, heldur sömuleiðis þeim áskorunum sem felast í hnattrænni hlýnun og tæknibreytingum.

Frú forseti. Það er ljóst að ríkissjóður verður fyrir gríðarlegu tekjufalli í kjölfar efnahagslegra áhrifa af útbreiðslu Covid-19. Þar kemur, því miður, ekki eingöngu efnahagsástandið til, heldur líka pólitískar ákvarðanir um að breyta skattkerfinu á þann veg að tekjur ríkisins verða, eins og ég sagði fyrr í ræðunni, 37–38 milljörðum kr. lægri á næsta ári. Þetta er hættumerki því að skattkerfisbreytingar mega aldrei verða til þess að draga úr getu ríkissjóðs til að standa undir velferðarþjónustu og nauðsynlegri uppbyggingu samfélagsinnviða. Þess vegna tel ég og hef sagt það áður í ræðustóli Alþingis að við þær aðstæður sem nú ríkja verði stjórnvöld að horfa með raunsæjum og víðsýnni hætti á það hvernig við getum aflað ríkissjóði tekna við þessar aðstæður sem nú ríkja, til að mynda með upptöku á ofurlaunaskatti, hátekjuþrepi á fjármagnstekjuskatti, auðlegðarskatti og auðvitað sanngjörnu afgjaldi fyrir auðlindanýtingu ásamt því að taka mun djarfari skref í svokölluðum grænum sköttum og grænum gjöldum á mengandi starfsemi. Þarna verðum við að fara að mynda okkur skýra stefnu. Sömuleiðis gagnrýni ég áform um breytingar á fjármagnstekjuskatti sem boðuð eru í fjárlagafrumvarpinu sem felur í sér lækkun á tekjum ríkissjóðs um 2,1 milljarð á ári og það munar um minna, frú forseti, þannig að skattalækkun til fjármagnseigenda á ekki að vera í forgrunni við núverandi aðstæður sem við búum við.

Núna er það verkefni stjórnvalda að tryggja afkomu fólks og sér í lagi í þeim þremur viðkvæmustu hópum sem verða fyrir mesta áfalli vegna Covid-19. Því er svo mikilvægt að skýra og skerpa þessa atvinnustefnu og atvinnumálin vegna þess að í síðustu efnahagskreppu fyrir áratug, eftir hrunið, var fólki gert kleift að mennta sig út úr kreppunni sem var gríðarlega góð og mikilvæg aðgerð, og góð ákvörðun. En það var ekki búið að þróa og skýra hvað beið eftir það aukna nám og þar verðum við líka að láta menntakerfið og atvinnustefnu tala saman. Þegar við viljum hvetja fólk til að nýta tækifærið og bæta við sig reynslu og þekkingu og mennta sig út úr kreppu þá verðum við líka að búa til atvinnustefnu á hinum endanum, því að afraksturinn hefur því miður verið sá að síðasta áratug hefur atvinnuleysi verið hvað mest í hópi háskólamenntaðra þar sem skortur var, og hefur verið undanfarin ár, á að greina, búa til og útfæra alvöruatvinnustefnu fyrir fólk með aukna menntun. Og þá þurfum við að kortleggja samfélag okkar, hvar við viljum sækja fram, hvar við viljum mennta fólk til að starfa við ákveðin störf, t.d. tæknibreytingar, orkugeirann eða græna geirann. Það er ýmislegt spennandi sem við getum lagt áherslu á, en þessi kerfi verða að tala saman, þ.e. atvinnustefnan og menntakerfið, því að í atvinnukreppu ríður á að útbúa og útfæra atvinnustefnu.

Ein stærsta áskorun næstu ára eru áhrif tækniþróunar á vinnumarkað. Í skýrslu forsætisráðuneytisins um fjórðu iðnbyltinguna var bent á að einstaklingar með litla færni væru í mestri áhættu fyrir að verða fyrir neikvæðum áhrifum af tæknibreytingum komandi ára. Þarna verður fjármagn að fylgja þeirri greiningu sem gerð hefur verið á áskorunum til að koma í veg fyrir framtíðarvanda. Þarna er líka tækifæri til að mennta fólk til þess síðan að glíma og takast á við þær áskoranir sem við eigum eftir að gera, eftir að Covid-19 lýkur, í formi tæknibreytinga.

Í fjármálaáætlun er boðuð mótun hæfnistefnu fyrir vinnumarkaðinn ásamt þeirri vinnu að spá fyrir um færniþörf á vinnumarkaði. Og það er vel og löngu tímabært. Það hefur skort um árabil en þarna er gott að sjá slíka boðun á mótun hæfnistefnu fyrir vinnumarkaðinn þegar kemur að þessu. Þetta er til að mynda eitthvað sem ASÍ hefur um langt skeið kallað eftir. Það er líka reynsla annarra ríkja sem við verðum alltaf að bera okkur saman við og sækja í þegar á reynir. Það hefur sýnt sig að mikilvægi þess að fjárfesta í réttri menntun og færni, ekki eingöngu á skólaaldri heldur yfir allan starfsaldurinn, borgar sig margfalt til baka fyrir okkur sem samfélag, fyrir einstaklingana sjálfa og svo líka fyrir okkur til þess að mæta þeim áföllum sem yfir okkur dynja og þeim krefjandi aðstæðum sömuleiðis.

Mig langar líka til að nefna í tengslum við vinnumarkaðinn og atvinnustefnuna það sem kemur fram í umsögnum listafólks við fjármálastefnuna, áætlunina og fjárlögin, þar sem listafólkið minnir á að huga þurfi betur að listum og menntun á sviði lista. Í því samhengi minni ég á að finna þarf lausn á húsnæðisvanda Listaháskóla Íslands og hefjast handa við uppbyggingu og þar er líka lag fyrir okkur til að nýta þá kreppu sem við stöndum frammi fyrir. En þetta eru ekki sérstakar aðstæður sem við búum við heldur er þetta líka að sjá í öðrum löndum.

Mig langar að lokum, frú forseti, að minnast á kynjasjónarmiðin. Alvarlegustu athugasemdir Bandalags starfsmanna ríkis og bæja við fjárfestingar- og uppbyggingarátakið lúta að kynjaáhrifum þess. Um 85% þeirra starfa sem skapast við framkvæmd fjárfestingarátaksins eru karlastörf og átakið mun því auka á kynjamisrétti eins og fram kemur í fjárlagafrumvarpinu. Þá munu aukin framlög í samkeppnissjóði gagnast körlum fremur en konum. Að auki kemur það mat fram í fjárlagafrumvarpinu að aukinn stuðningur endurgreiðslna vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar mun valda óbreyttu ástandi þar sem fyrir er kynjahalli. Vert er að minna á það að atvinnuleysi kvenna var meira í september síðastliðnum en karla og atvinnuleysi kvenna hefur líka aukist hraðar en karla vegna áhrifa heimsfaraldursins. Og því miður er niðurstaðan sú að fjárfestingar- og uppbyggingarátak ríkisstjórnarinnar fær falleinkunn út frá jafnréttissjónarmiðum. Á sama tíma sæta ýmsir málaflokkar hins opinbera, þar sem konur starfa í meiri hluta, mikilli aðhaldskröfu sem þýðir að álagið á konur sem starfa í opinberri þjónustu við börn, aldraða og sjúka er margfalt. Við þurfum að bæta þetta og við þurfum líka að hafa í huga að konur eru líklegri til að veikjast vegna álags í starfi.

Undir þetta tekur félagið Femínísk fjármál í umsögn sinni um fjárlög og fjármálaáætlunina þar sem það nefnir kynjaslagsíðuna í aðgerðum stjórnvalda til að bregðast við áhrifum heimsfaraldursins. Konur séu meiri hluti þeirra sem hafa misst vinnuna og kalla eftir því að kynja- og jafnréttissjónarmið séu ávallt höfð til hliðsjónar frá upphafi til að tryggja að aðgerðir sem settar eru fram í fjármálaáætlun og fjárlögum ýti ekki undir misrétti heldur stuðli að auknu jafnrétti og réttlæti í íslensku samfélagi.

Frú forseti. Ég er að renna út á tíma en ég vil í lokin minna á það að við þurfum að verja þau sem eru í viðkvæmustu þjóðfélagshópunum, en við þurfum líka í viðspyrnunni að huga að grænum verðmætum störfum og standa við skuldbindingar okkar í loftslagsmálum og þannig vegnar okkur langbest.