151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[18:35]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Forseti. Mig langar að koma aðeins inn á málefnasvið 17, umhverfismál, í síðari ræðu minni. Í fjárlögum, sem fjármálaáætlun rammar, er að finna nákvæmari útlistun á þeirri stefnu stjórnvalda sem liggur undir í fjármálaáætlun. Kostnaðargreiningar varðandi fjármagn eru einna bestar fyrir þetta málefnasvið. Þar er t.d. talað um bætta vöktun náttúruvár með styttingu viðbragðstíma og bætt rekstraröryggi vöktunarkerfa en þangað fara 60 milljónir. 115, 213, 400, 12, 80, 10, það er fullt af tölum hingað og þangað. 1.600 millj. kr. fara í framkvæmdir á Eskifirði, Siglufirði og Seyðisfirði, flýting yfirstandandi verkefna til að tryggja öryggi íbúa gegn ofanflóðum, ýmislegt mjög mikilvægt, átak í fráveitumálum sveitarfélaga upp á 800 milljónir.

Vandamálið sem ég lýsti í ræðu minni varðandi kostnaðarmat, varðandi ábatagreiningar, varðandi valkostagreiningu kristallast dálítið í þessu málefnasviði. Þegar fyrsta aðgerðaáætlunin kom út voru engar kostnaðargreiningar, engin ábatagreining eða neitt. Það var ekkert sem sagði okkur hvort aðgerðaáætlunin myndi skila okkur þeim árangri sem stefnt var að, sem stjórnvöldum bar að uppfylla samkvæmt ýmsum samningum. Uppfærð aðgerðaáætlun var eilítið nákvæmari. Það voru ekki allar aðgerðir kostnaðarmetnar eða ábatagreindar en nokkuð margar þó. Þetta er dæmi um hvernig við erum að þokast í áttina að betrumbótum í fjármálaferlinu. Þetta er satt að segja eina málefnasviðið þar sem hægt er að finna einhver gögn sem rökstyðja af hverju þarf þessar fjárheimildir, hvert þær eru að fara og hvaða árangri þær koma til með að skila. Það vantar að vísu algerlega valkostagreiningu upp á það að gera. En allt í lagi, smærri skref í einu eru jákvæðari og kostnaðarábatagreiningin er vissulega mikilvægari hlutinn. Valkostagreiningin kemur síðan seinna upp á ákveðið gæðaeftirlit.

Ég vildi bara vekja athygli á því að það er alveg tvímælalaust verið að gera góða hluti sums staðar í fjármálaáætlun. Að megninu til er hins vegar ekki verið að gera góða hluti. Það vantar í rauninni enn þá betra svar við spurningunum: Af hverju? Af hverju kostar þetta svona mikið eða svona lítið? Af hverju kostar þetta ekki minna? Af hverju kostar þetta ekki meira ef árangurinn eða áhrifin af aðgerðinni eru minni en væntingar standa til? Er það ekki hægt? Er ekki möguleiki á að fjármagna þetta verkefni meira o.s.frv.? Svo eru það áhrifin af þessu. Það á t.d. að auka hlutfall reiðhjóla og virkra ferðamáta og mælikvarðinn á það hvort sá árangur næst er tengdur við ákveðnar skattaívilnanir varðandi rafhjól og svoleiðis, þ.e. hversu mörg slík hjól eru flutt inn til landsins. Það skilar sér ekkert endilega í notkun. Vonandi gerir það það og líklega að einhverju leyti en það er erfitt að giska á hversu mikil notkunin er, að vera með upplýsta ágiskun. Þetta er dæmi um mat sem mun þurfa að fylgjast mjög vel með til að skoða hversu nákvæmt það er. Við viljum náttúrlega hafa þetta sem nákvæmast en við vitum alveg að erfitt er að ná nákvæmum tölum í upphafi ferlis þegar ekki er neitt annað til að byggja á.

Það er ekkert rosalega erfitt að uppfylla allar kröfur mínar um betri áætlunargerð í opinberum fjármálum. Ég krefst ekki mikils meira en að fólk reyni. Tölurnar mega vera ónákvæmar, segjum með vikmörkum á bilinu 50–100 milljónir fyrir verkefni í staðinn fyrir nákvæmlega 67 milljónir eða eitthvað svoleiðis. Það að hafa u.þ.b. réttar tölur í heildarsamhenginu gerir niðurstöðuna nokkuð nákvæma. Það er mjög líklegt að við vanáætlum í einu verkefni og ofáætlum í öðru en samtals verðum við nokkuð nákvæm í samhenginu nokkur hundruð milljarðar. Ég hef því ekki mjög miklar áhyggjur af nákvæmninni til að byrja með en eftir því sem við vinnum meira með þessi verkefni, öðlumst kunnáttu í stjórnkerfinu og í því að nota þessi verkfæri þá verða áætlunargerðirnar nákvæmari og betri. Það sem ég sé sérstaklega gerast í þessu ferli er einmitt þegar kemur að ábatanum af verkefnum. Miðað við núverandi ástand, t.d. miðað við úrelta brú eða eitthvað því um líkt, þá er ákveðinn kostnaður við það varðandi viðhald, umferðartöf, umhverfisáhrif og ýmislegt svoleiðis. Ef við byggjum nýja brú sem kostar vissulega dálítið mikið en hefur síðan í framhaldinu lægri viðhaldskostnað, minni umhverfisáhrif og þess háttar vinnur ágóðinn eftir því sem líður á upp kostnaðinn sem hlaust af gömlu brúnni. Að lokum verður ábatinn meiri en kostnaðurinn af gamla fyrirkomulaginu. Það sýnir okkur svart á hvítu, kannski fimm til tíu árum seinna, að við erum komin í plús með verkefnið. Þá er hægt að reikna með verkefninu sem ákveðinni aðhaldsaðgerð því að í stóra samhenginu er þetta í rauninni eitt stórt reikningsdæmi.

Við erum með langan lista af verkefnum sem við sinnum núna, með þjónustu, með ákveðnum réttaráhrifum, með kostnaðinum við lýðræðið og ýmislegu svoleiðis. Þessi verkefni og þessi þjónusta kostar hitt og þetta. Kaldhæðnin er að vitum við ekki hvað hvert verkefni kostar. Við vitum u.þ.b. hvað verkefni undir einni stofnun kosta samtals en ekki hvað hvert verkefni kostar fyrir sig. Þegar við vitum ekki hvað hvert verkefni kostar fyrir sig eigum við mjög erfitt með að gera hlutina skilvirkari af því að við vitum ekki hvar við eigum að byrja. Við vitum ekki hver er framtíðarkostnaðurinn við úrelt tölvukerfi eða úrelta brú. Ef við værum með það fyrir framan okkur myndi það segja okkur að hérna þyrftum við að einbeita okkur, hérna væru tækifæri til að gera eitthvað öðruvísi sem sparaði okkur þennan kostnað á næstu árum. Þegar við höfum þetta ekki fyrir framan okkur verður pólitíkin í meðhöndlun fjármálaáætlunar og fjárlaga alltaf léleg. Alltaf. Þegar við erum komin með kostnaðarmatið, þegar við erum komin með ábatamatið þá getum við farið að rífast í pólitíkinni um hvaða ábata við eigum að taka meira tillit til.

Það er t.d. hægt að meta ábata út frá byggðasjónarmiðum meira eða minna en út frá hverju sem er, umhverfisáhrifum þess vegna. Eða öfugt. Það er pólitísk ákvörðun að segja: Hér erum við með eitthvað sem hefur jákvæð áhrif á loftslagsmálin, hitt hefur jákvæð áhrif á t.d. byggðamál eða umferðartafir eða eitthvað því um líkt. Það er pólitísk ákvörðun að velja hvaða lausn hentar. Einn flokkur telur kannski byggðasjónarmiðin mikilvægari á meðan annar flokkur telur umhverfissjónarmiðin mikilvægari en þriðji flokkurinn segir: Kannski getum við gert blöndu af hvoru tveggja og náð einhverjum sameiginlegum árangri sem skilaði kannski ekki alveg jafn miklum árangri í umhverfismálum og ekki alveg jafn miklum árangri í byggðamálum eða eitthvað því um líkt? Þar kemur pólitíkin meira inn í spilið. Ef við höfum ekki þetta mat á því hvaða sjónarmið liggja á bak við ábatagreiningu og greiningu á áhrifunum náum við aldrei þangað í pólitík. Þá erum við alltaf að rífast um stóra kassann sem segir að verkefni þessarar stofnunar séu upp á 700 milljónir. Tökum Nýsköpunarmiðstöðina, við erum ekki að tala um einstök verkefni þeirrar stofnunar og áhrifin af þeim, við erum ekki að tala um hvernig við getum gert einstök verkefni innan þeirrar stofnunar betri og skilvirkari, náð meiri árangri, af því að við sjáum ekki hver kostnaðurinn er af þeim eða ábatinn, að sjálfsögðu. Það er náttúrlega eitthvað sem við getum gert líka. Það getur verið eitthvað í gangi sem skilar okkur ábata en það getur verið annað sem skilaði okkur enn þá meiri ábata. Ef við gætum t.d. fært verkefni í einhverja sameiginlega einingu, nýtt stærðarhagkvæmni eða eitthvað því um líkt myndi það gera pólitíska ákvörðun um slíka sameiningu mjög augljósa. En án þess er alltaf hægt að gagnrýna eitthvað eins og það að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð, af því að greiningin á bak við ábatann var ekki til staðar þegar ákvörðunin var tekin.

Nýsköpunarmiðstöð bar ákveðinn kostnað af stjórnsýslu, með fjármálastjóra og ýmsu svoleiðis, sem fylgdi því að vinna að öllum verkefnum sem þar voru. Ýmsar eftiráskýringar hafa komið á því að þegar búið var að búta öll verkefnin niður, skipta þeim og setja inn í háskólann og hvert sem er, þá fylgdi stjórnsýslukostnaður verkefnanna ekki með. Fjármagnið sem fer í verkefnið flyst á milli en ætlast er til þess að enginn aukakostnaður verði af verkefninu hjá nýju stofnuninni sem sér um það. Það eru einhvers konar galdrar eins og kom fram fram í svari við hv. þm. Brynjar Níelsson. Það er einhvers konar „vúdú“-ákvarðanataka hjá hinu opinbera sem er bara ekki ásættanleg. Við verðum fyrst að hafa forsendurnar, ekki eftir á eins og t.d. í Landsréttarmálinu. Við getum ekki fengið eftiráskýringar eins og ítrekað hefur komið fram. Við verðum að fá greinargóðan rökstuðning fyrir ákvörðunum hjá hinu opinbera. Það er einföld skylda og það er líka bara góð stjórnsýsla. Það eru fagleg vinnubrögð að vinna þannig. Á því er skortur en í málefnasviði 17 er besti vísirinn að því hingað til. Ég hvet fólk einfaldlega áfram í þá átt að gera svipaða hluti fyrir öll málefnasvið. Þó að ég hafi kannski hljómað mjög dómharður í fyrri ræðu þá er það af því að mér finnst þetta alvarlegt. En það þarf ekki mikið til til að laga þetta. Þetta eru ekki alvarlegra en svo að það á að vera auðvelt að laga það. Og af því að það er auðvelt en er ekki gert verð ég pirraður. Þetta er einfaldlega smá hvatning til að gera betur.