151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[20:18]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta er eitt stærsta málið sem við afgreiðum. Þetta eru 5.000 milljarða kr. fjármálaáætlun. Í henni megum við sjá framtíðarsýn þessarar ríkisstjórnar ef hún verður kosin aftur. Hver er sú framtíðarsýn? Skoðum aftur tölurnar því að þær segja sína sögu. Ef við lítum á þróunina þá mun framlag til nýsköpunar og rannsókna á næstu fimm árum — og takið eftir — lækka um 30%. Aukningin í umhverfismál, sem á að vera forgangsatriði þessarar ríkisstjórnar, er á næstu fimm árum 7,7%. Er græn bylting fólgin í 7,7%? Fjármunir sem fara í málefnasviðið Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta standa í stað á næstu fimm árum. Menning og listir fá lækkun upp á 14% á næstu fimm árum. Samgöngumál fá lækkun upp á 30%. Takið eftir þessum lykilmálaflokkum. Það eru fjölmargir málaflokkar sem fá hækkun. Það er ekki eins og allir málaflokkar fái lækkun en þetta (Forseti hringir.) eru málaflokkarnir sem eru látnir mæta afgangi, herra forseti. Þetta er framtíðarsýnin sem við búum við (Forseti hringir.) ef þessi ríkisstjórn verður kosin aftur.