151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[20:27]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég kem hingað aftur vegna þess að mér finnst eins og menn fari beinlínis með rangt mál. Tölurnar tala sínu máli. Við ræðum um þróun ríkisútgjalda 2021–2025. Ef við lítum t.d. á orð hæstv. menntamálaráðherra fá framhaldsskólar 7% lækkun á þessu fimm ára tímabili, 7% lækkun. (Gripið fram í.)Frá 2021–2025 er það lækkun. (Gripið fram í.) Það er framtíðarsýnin sem hér eru boðuð.

Lítum á háskólastigið. Hver haldið þið að hækkunin sé á fimm árum? 2,8%. Kann hæstv. menntamálaráðherra ekki prósentureikning? Það er 14% lækkun í menninguna. Berið saman sambærilega hluti, það er það eina sem ég bið um. Þessi umræða sýnir að hæstv. ráðherra og þingmenn þurfa að lesa sín eigin gögn. Vita þingmenn að fjárframlög í nýsköpun lækka um 30% frá 2021–2025? Ég er ekki svo viss um að þeir viti það. Þessi umræða sýnir að við þurfum þjóðhagsstofnun til að koma með gögn og tölur fyrir okkur. Við erum alltaf að rífast um einhverjar tölur. Það á ekki að vera hægt að (Forseti hringir.) rífast um tölur. Staðreyndir eru algildar. Þess vegna er ég svo þreyttur á þessari umræðu (Forseti hringir.) þegar menn fullyrða algerlega út í bláinn og ekki í neinu samræmi við tölurnar og gögnin.