151. löggjafarþing — 41. fundur,  17. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[21:29]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta velfn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni kærlega fyrir yfirferðina á nefndaráliti meiri hluta velferðarnefndar. Ég vil aðeins drepa niður í nefndarálitinu, en þar segir, með leyfi forseta:

„Vakin er athygli á að nálgunarbann leiðir ekki eitt og sér til tilfærslu á rétti til fæðingarorlofs heldur er forsenda tilfærslu að nálgunarbannið geri því foreldri sem banninu sætir í raun ókleift að nýta þann rétt sem það á til töku fæðingarorlofs innan 24 mánaða frá fæðingu barns …“

Svo segir, með leyfi forseta:

„Miðað við að foreldrið sem sætir banninu eigi rétt á sex mánaða fæðingarorlofi getur þar af leiðandi ekki komið til tilfærslu samkvæmt ákvæðinu nema nálgunarbann sé í gildi síðustu sex mánuði þess tíma, þ.e. þegar liðnir eru á bilinu 18–24 mánuðir frá fæðingu barns …“

Vegna þessa vil ég spyrja hv. þingmann út í hvernig hann sjái þetta fyrir sér. Segjum sem svo að foreldri sæti nálgunarbanni eftir árás á hitt foreldrið þegar barnið er fjögurra mánaða. Nálgunarbann er sett í sex mánuði, staðfest af dómi og svo er það framlengt um sex mánuði. Barnið hefur þá ekki hitt foreldri sitt frá því um fjögurra mánaða aldur og er nú orðið 16 mánaða. Telur hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson líklegt að það sé því barni fyrir bestu, sem ekki hefur hitt foreldri sitt frá fjögurra mánaða aldri, að vera í mikilli umönnun og fæðingarorlofi í sex mánuði með því foreldri sem beitti hitt foreldrið svo miklu ofbeldi að það sætti nálgunarbanni í 12 mánuði?