151. löggjafarþing — 41. fundur,  17. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[22:58]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að fjalla um frumvarp til laga um fæðingar- og foreldraorlof. Ég mæli hér fyrir breytingartillögu 4. minni hluta velferðarnefndar. Aðalbreytingin felst annars vegar í því að í stað fjárhæðarinnar 137.632 kr. í 3. mgr. 24. gr. komi 190.747 kr. og hins vegar að í stað fjárhæðarinnar 83.233 kr. í 1. mgr. 38. gr. komi: 190.747 kr.

83.233 kr. í fæðingarorlof er fáránlega lág tala. Ég gerði það að gamni mínu að fara inn á vef Vinnumálastofnunar. Ég fann þar reiknivél og sló inn ákveðnar forsendur. Þar kom mér ekkert á óvart, og þó, jú, að mörgu leyti. Það sem kom út úr þeirri leit var þessi niðurstaða: 80.341 kr. Ég rak augun í nokkuð í horninu hægra megin á síðunni. Ég hugsaði með mér: Tölvukerfi Vinnumálastofnunar er svo fullkomið að það er með gervigreind, af því að þar stóð „hjálp“ í hægra horni síðunnar.

Ég er ekkert hissa þótt þar standi hjálp, þegar einhverjir eru að fara að fæða og eru með 80.371 kr. á mánuði í fæðingarorlofi, svo ég ákvað að ýta á hjálp og vita hvort það kæmi ekki upp einhver möguleiki á því að hækka upphæðina. Nei, það eina sem kom upp var hversu stóran hluta af skattkortinu viðkomandi vildi nota. Þar fór sú von um að þarna væri hreinn og beinn misskilningur á ferð, það væri ekki möguleiki að hafa svona lága upphæð.

Þeir mörgu gestir sem komu fyrir nefndina í sambandi við þetta mál voru sammála um að þar þyrfti ýmissa breytinga við. En það sem sló mig var ákall frá ákveðnum hópi um að hækka hámarkstöluna, 600.000 kr. Þessar tölur eru auðvitað stórfurðulegar, eins og 137.000 kr. og 83.000 kr. Það er eiginlega merkilegt fyrirbæri að á sama tíma erum við að tala um 80% af þeim launum sem viðkomandi er með. Sumir vildu fara með 600.000 kr. upp í 800.000–900.000 kr. og þeir voru svo ánægðir með það og sögðu: Já, hækkum þetta helst þannig að það nái meðallaunum, sem eru rétt undir 780.000, að nálgast 800.000 kr. En að hækka lágmarkið? Nei, þeir höfðu engar áhyggjur af því. En ég hef miklar áhyggjur af því vegna þess að ég segi fyrir mitt leyti að það að fæða barn og sjá um það og gera allt sem þarf að gera með 80.000 kr. á mánuði og engar aðrar tekjur tel ég alveg útilokað. Því miður. Þá hef ég áhyggjur af því að þessi gífurlega lága upphæð valdi því að viðkomandi standi hreinlega frammi fyrir því að velja um að fæða barnið eða ekki. Valið verður um það. Getur viðkomandi séð um barnið, fætt það, eða verður hún að gefa það? Verður hún að stöðva þungunina og fara í þungunarrof? Slíkum spurningum á enginn að þurfa að svara. Við eigum að sjá til þess, og okkur ber eiginlega skylda til að sjá til þess, að þær konur sem vilja fæða börn geti það án nokkurra fjárhagslegra áhyggja.

Og það sem hvetur okkur mun meira til að sjá til þess að þetta sé með þeim hætti er sú staðreynd að fæðingartíðni á Íslandi hefur hríðlækkað, hún hefur aldrei verið lægri. Við verðum að átta okkur á því að árið 2009 var meðaltalið 2,2 börn á hverja konu. Í dag er það 1,7 börn þannig að við sjáum hvert stefnir. Fæðingartíðni var með því hæsta hér á landi en hefur fallið frá 2009, þegar hún var um 2,2 börn á hverja konu, í 1,7 börn að meðaltali 2019, segir í skýrslu. Þar kemur einnig fram að í Svíþjóð er meðalfæðingartíðni 1,76 börn og í Danmörku 1,72. Síðan er það staðreynd að núna eru það innflytjendur sem halda uppi endurnýjun á fólki á Norðurlöndum. Við verðum líka að átta okkur á því ef við förum yfir í ESB-meðaltalið að tíðnin þar er 1,5, sem er mjög lág tala. Það segir okkur að mannfjölgunin stendur ekki undir sér þannig að okkur fækkar. Á sama tíma erum við að setja upp þröskulda, þannig að þeir sem vilja og eru í þeirri aðstöðu að fara að fæða barn lenda á ákveðnum þröskuldum.

Það var annað sem sló mig þegar ég heyrði rökin fyrir skiptingu á mánuðum í fæðingarorlofi. Fyrst sá maður skiptingu mánaða í sex og sex, og svo einn og einn sem gæti komið inn með ákveðnum skilyrðum. En eins og við vitum núna er komið í ljós, eins og segir í nefndaráliti meiri hlutans, að talað er um skiptingu milli foreldra í sex mánuði og sex mánuði, en síðan er hægt að skipta með sér einum mánuði og svo hálfum mánuði. Þannig að í sjálfu sér er hlutfallið þar orðið sjö og hálfur, fjórir og hálfur, eitthvað svoleiðis, í mesta lagi. Ég myndi aldrei láta það stöðva samþykki mitt á þessu frumvarpi.

En það sem sló mig kannski mest var það sem ákveðinn einstaklingur sagði mér um ungt par sem ætlaði að eignast barn. Þau ætluðu ekki að skrá sig til sama heimilis, þau ætluðu að skrá sig hvort á sínum staðnum. Tilgangurinn með því var að stúlkan, sem var að fara að fæða barnið, fengi alla 12 mánuðina. Hvers vegna? Jú, af fjárhagslegum ástæðum. Það ætti að hringja einhverjum viðvörunarbjöllum þegar maður heyrir svona. Þá erum við að gera eitthvað rangt. Ég segi bara: Þó að ekki væri nema eitt par í þessari aðstöðu þá værum við ekki að gera hlutina rétt.

Ég man nefnilega í þessu samhengi að gerð var könnun á svikum í almannatryggingakerfinu á sínum tíma. Þá kom það upp að aðalsvikin lágu í því að fólk skráði sig hvort á sitt heimilið eða úr sambúð til að fá barnabætur og alls konar bætur til að reyna að bjarga sér. Þetta var eftir hrun. Ég kallaði þetta sjálfsbjargarviðleitni, þetta væri bara til að reyna að lifa af. Fjölskyldan var bara að reyna að bjarga sér. Í svoleiðis aðstæðum á enginn að þurfa að vera og allra síst þeir sem eru að fara að stofna heimili og eignast börn.

Fyrst og fremst verðum við og eigum að treysta foreldrunum. Við eigum að treysta þeim fyrir því hvernig þeir vilja hafa hlutina. Í hinum fullkomna heimi myndi ég segja að það væri eðlilegt að konan ætti níu mánuði og síðan ætti karlinn fullan rétt á þremur til fjórum mánuðum. Ég segi það bara af því að konan er með barn á brjósti. Við karlmennirnir getum það ekki. Það er alveg útilokað. Þar af leiðandi getur komið upp sú staða að eftir sex mánuði, jafnvel eftir sjö og hálfan mánuð, sem verður í þessu frumvarpi, ef það fer í gegn — það er þá alla vega skárra en það sem maður hefur heyrt, að sumir vilja hreinlega festa sex og sex mánuði. Aðgerðir til að þvinga feður í fæðingarorlof held ég að séu dauðadæmdar frá upphafi. Það væri miklu nær að hafa hvatningu og það væri miklu nær að vera ekki með t.d. 80% af launum heldur vera með 100% laun. Síðan er það talan sem er í dag 80.000 kr. og fer upp í 83.000 kr. Ef við færðum þá tölu upp í 190.000 kr. — þarna munar jú rétt um 100.000 kr., en þetta er ekki stór hópur — myndum við tryggja að þessi hópur fengi þá alla vega rétt um 80%, held ég að ég geti sagt, af lægstu lífeyrisgreiðslum í kerfinu. Það er ekkert rosalega há upphæð.

Ég myndi segja að það væri frábært fyrsta skref. Það kostar kannski einhverjar 200–400 milljónir. Það væri þá til þess að tryggja að sá sem er að fara að fæða barn treysti sér alla vega til þess og væri í mun betri aðstöðu fjárhagslega en ef hann væri með 80.000, eða þær 83.000 kr. sem þetta er uppfært í í frumvarpinu, sem er auðvitað allt of lágt, það segir sig sjálft. Það er með ólíkindum að við skulum vera með svona lágar tölur. Þegar ég sá þessar tölur þá hálfskammaðist ég mín fyrir að þær væru komnar í opinber plögg. Við erum með 350.000 kr. lágmarkslaun. Í sjónvarpinu í kvöld var talað við móður með tvö börn og hún er með 320.000 kr. á mánuði. Og þegar hún er búin að borga leigu þá eru um 100.000 kr. eftir. Og þegar hún er búin að borga alla reikninga þá þakkar hún fyrir að eiga fyrir mat fyrir fjölskylduna fyrstu viku mánaðarins.

Það sýnir okkur að tölurnar sem við erum með hérna standast ekki. Við getum ekki og megum ekki refsa ungri konu eða foreldrum sem eru að fara að eignast börn vegna þess að þau hafa einhverra hluta vegna hætt í námi, lent á atvinnuleysisbótum og eru dottin út úr því og komin á félagsbætur. Þau eru í þeirri fjárhagslegu stöðu að þau fá þessar 83.000 kr. Við megum ekki hafa þetta svona og við eigum ekki að gera það, vegna þess að við verðum að sjá til þess að þeir sem eru í þeim hugleiðingum að eignast barn og ætla að fara að stofna heimili séu algjörlega með það á tæru að þeir muni ekki þurfa að taka einhverjar skyndiákvarðanir út frá því hver fjárhagsstaða þeirra er. Maður gerir sér grein fyrir því að í fæðingarorlofi getur verið um mjög háar upphæðir að ræða en í þessu tilfelli eru þetta peningar sem skila sér. Þetta eru peningar sem við eigum að sjá til að allir fái þannig að þeir geti verið fjárhagslega öruggir vegna þess að þetta eru peningar sem skila sér margfalt til baka.

Mér finnst einhvern veginn eins og við séum að verðleggja börn í þessu samhengi. Við erum að verðleggja börn þeirra sem eru fátækir. Þeir þurfa að hugsa: Bíddu, á ég að eignast barnið? Hef ég efni á því? Hvað á ég að gera? Og svo eru það hinir sem eru kannski á vinnumarkaði, eru með góð laun, þeir þurfa ekkert að pæla í þessu. Það er himinn og haf þarna á milli, sem á ekki að vera svo erfitt að brúa vegna þess að við erum ekki að tala um rosalegar upphæðir ef við tökum bara fjárlög ríkisins í heild sinni. Við erum núna t.d. að spreða milljörðum í Covid-björgunaraðgerðir, en við segjum í þessu frumvarpi um börnin að við höfum ekki efni á því að fara með 80.000 kr. upp í 190.000 kr., sem ætti helst að vera frá 80.000 kr. upp í 350.000, sem eru lágmarkslaun.

Í sjálfu sér ætti enginn að þurfa að fara í fæðingarorlof og hafa minna en 350.000 kr. Það er ekki há upphæð, það er upphæð sem margborgar sig, bæði fyrir barnið og foreldra. Þá erum við nokkurn veginn komin á þann stað að viðkomandi þarf ekki að taka þá skelfilegu ákvörðun að eignast ekki barnið vegna þess að hann hefur ekki fjárhagslega burði til þess.

En að öðru leyti er frumvarpið flott. Verið er að lengja fæðingarorlofið í heilt ár. Það er flott. Komið hefur fram að hægt væri að skipta mánuðunum í fjóra, fjóra og fjóra. Ég var alveg sáttur við það í upphafi. Það var það fyrsta sem mér datt í hug, fjórir, fjórir, fjórir. En ég myndi ekki láta það koma í veg fyrir að ég greiddi atkvæði með frumvarpinu. Skiptingin er ekki það sem angrar mig, ekki eins mikið og sú fjárhagslega staða sem er lýst í þessu frumvarpi, vegna þess að með því að færa þetta úr 80.000 kr. í 190.000 kr. erum við kannski að tala um 200–400 milljónir kr. Og ef við ætlum að fara með þetta upp í 350.000 kr. lágmark erum við kannski tala um 1,5–2 milljarða kr. Setjum það í samhengi við það sem ég sagði í upphafi, minnkandi fæðingartíðni og að við höfum þá alla vega einhvern hvata. Við eigum að hafa meiri hvata til þess að fólk eignist börn frekar en að hafa hvatann í hina áttina, að það geri það ekki vegna þess að fjárhagsleg staða þess valdi því.