151. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[00:26]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta velfn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég ber fulla virðingu fyrir því að við getum ekki öll verið sérfræðingar í öllum málum en ég get fullyrt að það er alls ekki verið að gera það sama með tillögu meiri hluta í þessu máli og með þeirri tillögu sem ég ber fram fyrir þingið sem veitir foreldri sem verður fyrir ofbeldi, svo miklu ofbeldi að nálgunarbanni er beitt, rétt til töku hinna sex mánaðanna skilyrðislaust. Sú tillaga sem kemur frá meiri hlutanum er að foreldri sem beitt hefur verið ofbeldi á fyrstu sex mánuðunum tæmir sinn rétt og þarf svo að bíða til átjánda mánaðar og kanna þá hvort það verði virkt nálgunarbann sett á hitt foreldrið gagnvart þessu foreldri til að eiga möguleika á að sækja þennan rétt. Þá er rétt að benda á það að sú vörn sem stjórnarmeirihlutinn í velferðarnefnd telur sig hafa í þessu máli á bara við um forsjárlausa foreldra en foreldrar sem eignast barn þegar þau eru í hjúskap eða í skráðri sambúð fara sameiginlega með forsjá barns, þannig að sú vörn sem meiri hlutinn telur sig hafa til að verja það foreldri og það barn og veita þeim þennan 12 mánaða fæðingarorlofsrétt, sem við fögnum öll hér í dag, sem þessir einstaklingar hafa ekki, vörnin er ekki til staðar af hálfu meiri hlutans. Þarna er verið að skerða rétt ungbarns sem býr við heimilisofbeldi og foreldris sem býr við gróft ofbeldi, það gróft að sett er á nálgunarbann, til töku 12 mánaða fæðingarorlofs.