151. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[01:25]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta velfn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir umfjöllun sína og tek undir það að fjárhæðir og traust og frelsi skiptir máli en vernd gegn ofbeldi skiptir líka máli. Það skiptir öllu máli af því að barn sem elst upp við ofbeldi getur orðið fyrir varanlegum skaða á þroska og heila. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann hvers vegna hann telur ekki nauðsynlegt ef barn býr hjá foreldri sem hefur mátt sæta það miklu ofbeldi að nálgunarbanni er beitt, lögregla tekur ákvörðun eða ákæruvald tekur ákvörðun um að beita nálgunarbanni og leitar úrskurðar dómstóla, að það sé sjálfkrafa tilfærsla á hinum sex mánuðum fæðingarorlofs svo að barnið geti búið við öruggt umhverfi á fyrstu 12 mánuðum æviskeiðs.

Ég minni hv. þingmann, sem er löglærður, á „pater est“-reglu barnalaga sem er þess eðlis að ef fólk sem er í hjúskap eða sambúð eignast barn þá fer það saman með forsjá þannig að ákvæði 8. mgr. 9. gr. koma engan veginn til aðstoðar þegar um er að ræða fólk sem fer saman með forsjá. Við þurfum að huga að börnum og vernda þau gegn ofbeldi.