151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

horfur um afhendingu bóluefnis vegna Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[13:19]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við höfum fengið nýjar upplýsingar um að mögulega dragist að bólusetja. Á sama tíma verður maður kannski hugsi vegna þess að við búum á eyju. Grænland stendur vel, Nýja-Sjáland stendur vel en við erum á viðkvæmum stað í dag. Við erum á viðkvæmum stað vegna þess að veiran kom inn í landið aftur. Ég er eiginlega kominn að þeirri spurningu hvort við getum ekki nú þegar séð til þess að við fáum ekki inn í landið ný afbrigði eins og minkaafbrigðið frá Danmörku eða bráðsmitandi afbrigðin frá Evrópu. Getur ráðherrann tryggt að við séum alla vega komin í þá stöðu að við fáum ekki nýju afbrigðin í gegnum Keflavíkurflugvöll eða erlendis frá? Ef við hefðum passað upp á þetta værum við í rosalega góðum málum í dag. Við værum með leikhúsin opin, við værum með opin veitingahús, við værum með allt opið, við værum í frábærum málum ef við hefðum gert það. Við verðum að gera það núna miðað við þær fréttir sem verið er að tala um, að þetta gæti varað alveg fram á næsta haust.

Síðan er annað sem ég hef verið að furða mig á og velta fyrir mér: Nú fáum við sennilega þrjár tegundir af bóluefni og eitt af því er algjör ný tegund af bóluefni frá Pfizer. Ég spyr: Fær fólk val? Getur það valið og sagt: Ég vil ekki þetta bóluefni, ég vil hitt? Hefur það kost á því? Hvernig verður því háttað? Nú get ég ímyndað mér að sumir vilji nýja efnið og sumir vilji gamla efnið. Svo er spurningin auðvitað: Hvað af þessum efnum er virkast? Þetta eru spurningar sem ég er að velta fyrir mér hvort hæstv. ráðherra gæti svarað.