151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs .

362. mál
[13:28]
Horfa

Frsm. velfn. (Ásmundur Friðriksson) (S):

Virðulegur forseti. Ég flyt nefndarálit með breytingartillögu um frumvarp til laga um greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar á tímum kórónuveirufaraldurs, frá meiri hluta velferðarnefndar.

Málinu var vísað til nefndarinnar milli 2. og 3. umr.

Við umfjöllun nefndarinnar um málið kom fram að mikilvægt væri að tryggja að úrræðið næði sem best utan um flesta þeirra fjölbreyttu launa- og verktakasamninga sem íþróttafélög landsins hafa gert við þá sem sinna daglegu íþróttastarfi hjá félögunum.

Nefndin leggur til breytingu sem er ætlað koma betur til móts við fjölbreyttar þarfir íþróttafélaganna. Lúta breytingarnar að því að færa launatengd gjöld undir gildissvið laganna. Samhliða því verði 70% hámark vegna verktakagreiðslna fellt brott og hámark greiðslna lækkað úr 500.000 kr. á mánuði fyrir hvern launamann eða verktaka niður í 400.000 kr. Telur nefndin að slík breyting hafi í för með sér óverulegan kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.

Með þeim breytingum sem lagðar eru til verður staða þeirra sem sinna íþróttastarfi, hvort sem er launamanna eða verktaka, jöfnuð. Íþróttafélögin muni eiga kost á því að fá greitt sama hlutfall kostnaðar óháð ráðningarformi. Ljóst er að margir þeirra íþróttamanna og þjálfara sem frumvarpinu er ætlað að ná til eru í hlutastörfum og ætti lækkunin því ekki að hafa áhrif á þann hóp starfsmanna. Nefndin telur að með því að færa launatengd gjöld undir gildissvið frumvarpsins og þrátt fyrir áðurnefnda lækkun hámarks muni úrræðið betur gagnast íþróttafélögum.

Nefndin áréttar að með breytingum sem gerðar voru á frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar á yfirstandandi þingi var launamönnum hjá félögum sem eiga hér heimili og verja hagnaði sínum einungis til almenningsheilla, og hafa það að einasta markmiði samkvæmt samþykktum sínum, auk annarra lögaðila sem reka óhagnaðardrifna atvinnustarfsemi gert mögulegt að sækja um hlutabætur. Þar undir falla íþróttafélög.

Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

1. Á eftir 1. tölulið 3. gr. komi nýr töluliður, svohljóðandi: Launakostnaður: Til launakostnaðar teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir skv. 1. tölul. 5. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, ásamt iðgjaldi í lífeyrissjóð, að hámarki 11,5% af iðgjaldsstofni skv. 3. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, allt að 2% af iðgjaldsstofni samkvæmt gildandi samningi um viðbótartryggingavernd, sbr. 2. og 9. gr. sömu laga auk tryggingagjalds samkvæmt lögum um tryggingagjald, nr. 113/1990.

2. Við 6. gr.

a. Í stað orðanna „launagreiðslum til launamanna og allt að 70% af verktakagreiðslum“ í 1. málsl. komi: launakostnaði eða verktakagreiðslum.

b. Í stað „500.000 kr.“ í 2. málsl. komi: 400.000 kr.

Anna Kolbrún Árnadóttir skrifar undir álit þetta með fyrirvara sem hún hyggst gera grein fyrir í ræðu. Hanna Katrín Friðriksson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Undir nefndarálitið skrifa Helga Vala Helgadóttir, formaður nefndarinnar, Ásmundur Friðriksson framsögumaður, Anna Kolbrún Árnadóttir, með fyrirvara, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Sara Elísa Þórðardóttir og Vilhjálmur Árnason.