151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs .

362. mál
[13:35]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Ég tek undir það að mjög mikilvægt er að um þetta hafi náðst ákveðin sátt og lending til að mæta því mikilvæga starfi sem er unnið á vegum íþróttafélaganna í landinu, ungmennastarfsins. Ég hef reyndar ekki fengið skýringar á því hvað verður um önnur félög sem sinna ekki síður mikilvægu starfi í þessu samhengi, félög eins og Bandalag íslenskra skáta, skátahreyfingin, sem er með alveg gríðarlega öflugt ungmennastarf sem lýtur í raun alveg sömu lögmálum og íþróttahreyfingin með tilliti til starfsmanna og áhrifa á starfið. Það sama á í raun og veru við um KFUM og KFUK starfið, Vatnaskóg og slíkt. Ég veit að þessi félög voru í viðræðum við þingmenn þar sem reynt var að mæta sjónarmiðum þeirra. Ég vona að það hafi tekist í gegnum aðrar leiðir að lenda líka lausnum fyrir það mikilvæga starf sem þar á sér stað. Það er mjög mikilvægt þegar við horfum til ungmenna og æskulýðsstarfs í landinu og Ungmennasambands Íslands, að það er ekki bara íþróttahreyfingin og allt það mikilvæga starf sem þar fylgir, þetta á sér líka stað á víðari vettvangi. Það er mjög mikilvægt að við gætum að því að fjölbreytni geti átt sér stað. Við horfum alltaf á það með heildarmyndina í huga. Við þurfum líka að mæta þeim sem eru ekki stærstir og öflugastir en sinna ekki síður mikilvægum þætti í þessu starfi.

Það er gæfa okkar að búa að svo öflugu starfi sem raun ber vitni þegar kemur að ungmenna- og æskulýðsstarfi í landinu sem oft og tíðum er unnið að miklu leyti í sjálfboðaliðastarfi en síðan drifið áfram af nokkrum starfsmönnum sem geta fylgt því eftir. Árangur okkar á þeim vettvangi verður seint ofmetinn og við berum þær skyldur hér á Alþingi að standa vel að baki þessu starfi. Ég vona, eins og ég hef haft upplýsingar um án þess að ná alveg utan um það, að lausn hafi fundist á því og orðið við þeim óskum sem ég nefni í ungmenna- og æskulýðsstarfinu sem við erum að leysa hér, þ.e. í þeim þáttum sem snúa að íþróttafélögunum og unglingstarfinu þar.