151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs .

362. mál
[13:40]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er ekki pólitískt mál í sjálfu sér eða neitt deiluefni hér. Ég veit að hugur okkar allra er sá sami þegar kemur að þessu mikilvæga starfi. Ég vildi halda því til haga. Ég hafði haft af því fregnir að menn hefðu verið að skoða allar mögulegar leiðir til að fella þá starfsemi sem við erum að tala um undir þessa afgreiðslu. En hún er svona til hliðar. Ég treysti því að menn hafi náð sambærilegri lausn á öðrum vettvangi fyrir þessi félög og að það reynist vera fullnægjandi. Aðalatriðið er að við höfum það í huga í framtíðinni þegar við fjöllum um þessi mál að við horfum til þeirrar breiðu flóru sem er með starfsemi á þessum vettvangi. Ég efast ekki um að nefndin hefur gert það sem hún hefur getað til að mæta þeim sjónarmiðum.