151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[14:28]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Heilt ár í lífi barns skiptir máli, hvað þá fyrstu mánuðir á fyrsta ári ævinnar. Við erum að tryggja samvistir við foreldra í 12 mánuði og því ber að fagna. Við getum líka horft til framtíðar. Við erum að stíga mikilvægt skref til að börn framtíðar geti nýtt sér þetta þegar þau komast á þennan aldur. Kannski verður það þá talið eðlilegt og kannski getum við þá farið að tala um frelsi og jöfnuð hvað varðar skiptinguna. Við erum ekki komin þangað, við verðum að virða þessa skiptingu. Nú get ég farið heim og sagt börnum mínum sem ég á af báðum kynjum: Þið eruð jafnhæfir foreldrar í augum Alþingis Íslands. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)