151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[14:30]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Lenging fæðingarorlofsins er alveg risastórt framfaraskref. Þetta er samfélagsmál, þetta er efnahagsmál og þetta er líka jafnréttismál. Sjálf aðhyllist ég að skiptingin sé sem jöfnust. Þess vegna finnst mér það mikilvæg réttindi sem báðum foreldrum eru tryggð með sex mánuðunum en það er líka skynsamlegt að leyfa framsal á sex vikum. Næsta skref hjá okkur ætti auðvitað að vera að hækka bæði tekjuþakið og svokallað gólf en til þess þurfum við náttúrlega fyrst að ná viðspyrnu í atvinnulífinu og tryggja fjármögnun Fæðingarorlofssjóðs.