151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[14:35]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Lögin um fæðingarorlof sem sett voru á Alþingi árið 2000 mörkuðu tímamót í sögu jafnréttisbaráttu á Íslandi og voru risastórt skref í þágu jafnréttis, kannski ein mikilvægasta kerfisbreyting sem við höfðum gert í þágu þess málstaðar. Núna erum við ekki einungis að lengja orlofið í 12 mánuði, sem skiptir verulega miklu máli fyrir velsæld barnafjölskyldna á Íslandi, heldur er hér einnig stigið framfaraskref í að tryggja enn betur möguleika beggja foreldra á að taka þátt í uppeldi barna sinna á fyrstu árunum. Það er risastórt jafnréttismál, ekki bara fyrir þátttöku kvenna á vinnumarkaði heldur einnig fyrir þátttöku karla í uppeldi barna sinna sem er risastórt jafnréttismál. Þetta er því gríðarlega gott mál og það er ánægjulegt að fá að taka þátt í málum sem hafa raunverulega áhrif á gildismat samfélaga í rétta átt og jákvæða átt fyrir okkur öll.