151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[14:42]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hér erum við að stíga frábært skref í lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði. Það skiptir miklu máli að gera betur við barnafólk og við höfum lagt áherslu á að hækka greiðslurnar og lengja orlofið. Það er mikilvægt. Auðvitað hefur verið mikil umræða um skiptingu orlofsins milli foreldra og andstaða við jafna skiptingu snýst ekki um andstöðu við að feður taki meiri ábyrgð á börnum og heimili heldur um ákveðinn sveigjanleika og tillit til mismunandi fjölskyldugerða. Fjöldi slíkra athugasemda hefur komið fram. En frelsið er líka fjölbreytt. Í 50 ár var fæðingarorlof með lögum bundið við konur. Þar var fest í sessi ákveðið hlutverk kvenna og í því er ekki mikið frelsi. Því var mikilvægt skref að festa mánuði við annað foreldrið og stuðla þar að mjög mikilvægu jafnrétti. Þrátt fyrir það er ýmis vinna eftir. Stór hluti af því að ná jafnrétti er aðgengi að dagvistun og leikskóla að loknu orlofi sem og hækkun greiðslna og þátttaka atvinnulífsins. Staðreyndin er sú að tengsl barna við feður hafa styrkst verulega eftir að hluti fæðingarorlofs var bundinn við þá. En enn er of ríkt viðhorf að þetta sé alfarið hlutverk konunnar. Sú leið sem meiri hlutinn fer í dag er góð leið á milli tveggja sjónarmiða af því að fjölskyldur eru ólíkar og þarfir eru mismunandi. Þannig komumst við á, held ég, þann besta stað sem á verður kosið.