151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[14:44]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ákveðið var að kalla til baka breytingartillögur er varða þetta litla afmarkaða mál sem snertir nálgunarbannið þannig að ég ætla ekki að eyða meiri tíma í það en kynna aðrar breytingartillögur Samfylkingarinnar sem lúta að því að hækka fæðingarstyrk til allra viðkvæmasta hópsins, þeirra sem eru utan vinnumarkaðar og námsmanna. Við erum með breytingartillögur samhliða því í breytingartillögum við fjárlögin þannig að heildarsumman er 70 milljónir og ég held að við hljótum að ráða við það til að lyfta aðeins upp 83.000 kr. greiðslu til þeirra sem eru utan vinnumarkaðar. Að auki leggjum við til að þegar um er að ræða laun undir lágmarkstaxta fái viðkomandi ekki 80% af heildartekjum í fæðingarorlofi eins og aðrir heldur verði miðað við lágmarkslaun og ég held að það yrðu góð skilaboð frá þinginu að samþykkja þetta.