151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[14:57]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum hér atkvæði um margbrotið mál. Þetta er á sinn hátt mjög stórt fjölskyldumál, vinnumarkaðsmál, barnamál og jafnréttismál. Það er ekki nýtt kerfi sem við erum að ræða um hér. Við eigum langa sögu og við höfum lært margt af henni. Við höfum t.d. lært að of lágt þak á mánaðarlegar greiðslur í fæðingarorlofi hefur mikil áhrif á kynin þegar kemur að töku fæðingarorlofs og við getum lært af þessari löngu reynslu að það skiptir máli að hafa óframseljanlega mánuði. Við getum síðan tekist á um nákvæmlega hvernig við ætlum að skipta þeim. En hér í dag finnst mér að við eigum fyrst og fremst að vera stolt af því að fara með mánaðafjöldann upp í 12. Það er verulega vel gert og við höldum því striki okkar sem við höfum stefnt að í þessari ríkisstjórn á þessu kjörtímabili þrátt fyrir efnahagsáfallið og þrátt fyrir að þessi aðgerð sé ekki sérstaklega fjármögnuð. Það sýnir hversu mikla áherslu ríkisstjórnin leggur á þetta mál.