151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[14:58]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég aðhyllist jafnrétti af þeirri einu ástæðu að ég aðhyllist frelsi. Fyrir mér er frelsi fólgið í því að geta beitt sér og nýtt hæfileika sína á jafnræðisgrundvelli við aðra aðila samfélagsins. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að þetta blessaða samfélag, sér í lagi atvinnulífið en líka feður, mæður og fólk almennt, átti sig á því að þegar konur hætta að vera ókeypis vinnuafl til að ala upp börn þá lendir restin á samfélaginu, hvort sem atvinnulífinu líkar það betur eða verr. Það þarf að axla þá ábyrgð og við þurfum að gera það saman. Það getur alveg kostað fórnir, eðlilega. En ef við ætlum að standa saman í því að hafa jöfn tækifæri til að beita frelsi okkar eins og hver og einn einstaklingur vill tel ég einsýnt að við eigum öll að gera ráð fyrir því að foreldrar séu með börnin sín til jafns. Síðan eru að sjálfsögðu alls konar undantekningar og séraðstæður sem ég myndi gjarnan vilja ræða (Forseti hringir.) og enda kannski á því að ræða við 3. umr., sjáum til. (Forseti hringir.) En ég vildi bara koma upp og segja að jafnrétti og frelsi eru fyrir mér tvær hliðar á sama peningi.