151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[15:04]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er dálítið áhugavert að sjá hversu skiptar skoðanir eru um svona mikilvægt mál eins og hér um ræðir. Það er sannarlega hægt að segja að ekkert af þessum jafnréttismálum hefur orðið til í tómi. Búið er að hafa mikið fyrir því að ná því fram sem nú þegar er orðið að lögum. Við höfum fjallað um sex mál í þinginu sem öll eru í átt til aukins jafnréttis; kynrænu málin, stjórnsýslu jafnréttismála og önnur mál sem þar eru undir og heildarendurskoðun þeirra laga. Svo erum við hér að fjalla um fæðingarorlofið. Allt eru það mál sem styðja við jafnrétti allra kynja. Við eigum að fagna þessu. Við eigum ekki að vera í skotgröfum um hvers vegna og hvernig við eigum að skipta. Auðvitað hefur þingið áhrif á með hvaða hætti lögin fara frá okkur. Það hefur alltaf verið þannig. Það er ekkert nýnæmi í því. Þegar við skiptum því á sínum tíma var það ákveðið á Alþingi. Það erum við að gera núna. (Forseti hringir.) Sannarlega eigum við að fagna svona góðum málum.