151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[15:06]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Lenging fæðingarorlofs er framfaramál fyrir fólk í þessu landi. Þegar sama kvöð er fyrir atvinnurekendur að ráða konu á barneignaaldri og karlmann á barneignaaldri getum við talað um fullt frelsi. Þegar viðhorfin eru sambærileg gagnvart því þegar karl tekur fæðingarorlof til að sinna barni sínu og þegar kona gerir það getum við talað um fullt frelsi. Þegar dagvistunarúrræði eru til staðar sem taka við af 12 mánaða fæðingarorlofi getum við talað um fullt frelsi. Þegar jafnrétti er náð getum við talað um fullt frelsi. Þetta verkefni er þarna og þetta er jú vinnumarkaðsmál en það er líka fjölskyldumál. Og það vegur þyngra en full stýring á réttindum sem við erum að veita fólki í þessu landi með fjármunum vinnandi fólks í þessu landi. Þess vegna þarf svigrúm. Ég er stolt af því að við séum að lengja fæðingarorlofið. Það er risastórt mál og ég styð niðurstöðu meiri hlutans.