151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[15:09]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Mig langaði að koma hingað upp til að tala um valfrelsi og þá orðræðu margra hv. þingmanna að ekki sé um raunverulegt val að ræða eins og staðan er í jafnréttismálum núna. Ég vildi bara nefna að þegar skiptingin er jafn stíf og verið er að leggja til, sex, sex og svo þessar sex vikur, er ekki heldur um að ræða raunverulegt valfrelsi fyrir allar fjölskyldur. Ef við hugsum til barna innflytjenda, til karla sem eru af erlendu bergi brotnir og fá ekkert val um að fara í fæðingarorlof með börnin sín, sem eru réttindalausir á Íslandi, þá eiga börn þeirra á hættu að verða af fæðingarorlofi með a.m.k. öðru foreldri sínu. Ef við tölum um tekjulægsta fólkið þar sem faðirinn eða móðirin er kannski með örlítið hærri tekjur heldur en hitt þá er ekki val fyrir þau að verða fyrir 20% tekjuskerðingu og eiga jafnvel líka á hættu að missa vinnuna í kjölfarið þótt það sé ólöglegt. (Forseti hringir.) Hlutirnir eru ekki svona svart/hvítir. Það er verið að tala raunveruleikann á vinnumarkaði. Hann er margvíslegur. Þess vegna leggjum við til aðeins meiri sveigjanleika.