151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[15:14]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Nú komum við inn á þessa margumræddu skiptingu sem hefur náttúrlega verið mesta hitamálið. Við leggjum fram breytingartillögu þar sem svarað er ákalli foreldra og samfélagsins og, eins og hv. þingmaður kom inn á rétt áðan, ákalli Geðverndar. Í stórum hluti umsagna sem bárust um þetta mál var kallað eftir auknum sveigjanleika og auknu frelsi. Við heyrðum frá landlækni, Geðvernd o.s.frv. að það væri mikilvægt. Ég vil benda á að á þessum 20 árum frá því að upphaflega fæðingarorlofstímabilinu var breytt til hins góða, að því er virðist, hafa líka orðið framfarir í þroska barna og fjölskyldna og geðheilbrigði og líka í umræðu um frelsi og því að vinnumarkaðurinn sé ekki alltaf að anda ofan í hálsmálið á foreldrum þegar kemur að ákvarðanatöku innan heimilisins eða þörfum fjölskyldunnar. Fjölskyldan hefur aukið svigrúm. (Forseti hringir.) Ég hvet þingmenn og þingheim til að greiða atkvæði með þessari tillögu vegna þess (Forseti hringir.) að hún endurspeglar ákallið, skýrt ákall úr samfélaginu um fjórir, fjórir, fjórir.