151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[15:16]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Við greiðum hér atkvæði um tillögu sem samkvæmt nefndarálitinu er hin svokallaða fjórir, fjórir, fjórir tillaga. Tæknilega séð er breytingartillagan sex, sex, tveir framseljanlegir, en látum það liggja á milli hluta. Ég tel þetta mjög mikilvæga breytingartillögu og styð hana, sérstaklega í ljósi þess að við, eins og við viljum oft segja á tyllidögum hér í þingsal, eigum að hlusta á unga fólkið, hlusta á komandi kynslóðir og þau sem eru á vettvangi. Það eru þau sem hafa talað og vilja fá traust til að taka ábyrgð á því hlutverki sem þau eru að taka að sér og til að stýra fjölskyldu sinni og hag síns barns eins og best verður á kosið. Við höfum náð gríðarlega góðum árangri með skiptingunni, þrír, þrír, þrír hingað til. Það er ekkert sem segir að við munum ekki ná þeim árangri áfram með skiptingunni fjórir, fjórir, fjórir. Ég styð hana því hér.