151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[15:17]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég hefði einmitt haldið að ríkisstjórn sem segist spanna litrófið frá hægri til vinstri hefði komið sér saman um þessa tillögu þegar kæmi að ágreiningi innan flokkanna. Sumir vilja sex, sex, aðrir vilja tólf, núll. Niðurstaðan gæti verið nokkurn veginn fjórir, fjórir, fjórir, sem er það sem við Píratar erum að efninu til að leggja til, ábyrg málamiðlun vegna þess að ekki stendur til að bæta efnahagsumhverfi foreldra. Það mun enn þá vera ákvörðun út frá fjármagni hvort foreldrið tekur fæðingarorlofið. Það mun enn þá skipta sköpum fyrir fjárhag heimilisins hvort foreldrið tekur orlofið. Það er ekki raunverulegt valfrelsi á meðan við lögum ekki þessa efnahagslegu hvata. Á meðan staðan er sú getur þingflokkur Pírata ekki talað fyrir fullkomnu frelsi. En við leggjum til þessa ábyrgu málamiðlun til að tryggja að ekki verði afturför í jafnréttismálum og sömuleiðis að fjölskyldur fá aukið svigrúm til að ráða sínum málum sjálfar, til að velja hvað er barninu fyrir bestu, enda snýst þetta um hvað er því fyrir bestu.