151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[15:22]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir gerði góða grein fyrir þeim lið sem við greiðum nú atkvæði um. Þetta er rosalega mikilvægt mál. Það sem verður að gerast er að hætta þarf þessari veikindavæðingu heilbrigðrar meðgöngu. Sú sem hér stendur hefur staðið í þessu fjórum sinnum, á að baki fjórar meðgöngur. Ég tel mig alveg geta komið með eitthvað til borðsins og geta tekið upplýsta afstöðu gagnvart þessu. Það er ekki sanngjarnt að konur þurfi að líta á sig sem veikar og að samfélagið allt líti á meðgöngu sem veikindi. Mæðraorlofið er mikilvægt.

Hins vegar hefði ég viljað sjá fullan sal þegar umræðan átti sér stað hér í gær. Ég hefði viljað að málið hefði ekki verið svona seint á dagskrá til að ná einmitt þeirri dýnamík sem er komin í þennan sal í umræðu um þetta mikilvæga mál. Aftur á móti erum við hér í ákveðnu, með leyfi forseta, „Catch-22“. (Forseti hringir.) Við ætlum að laga vandamál með því að gefa mæðraorlof til að barnið þurfi ekki að líða fyrir ákveðna hluti. (Forseti hringir.) En þá erum við aftur komin með vandamál á vinnumarkaði. Þetta þarfnast því bara miklu dýpri og meiri umræðu. (Forseti hringir.) Stöndum með barninu, þörfum þess og konunnar sem gengur með það.