151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[15:35]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Í 8. gr. frumvarpsins er lagt til að foreldrar fái jafnan rétt til fæðingarorlofs, sex mánuði hvort foreldri, og að heimilt verði að framselja einn mánuð þannig að annað foreldrið geti tekið sjö en hitt fimm mánuði. Þetta fyrirkomulag er ekki úr lausu lofti gripið heldur er það byggt á ítarlegum rannsóknum sem hafa sýnt að það er börnum fyrir bestu að njóta umönnunar beggja foreldra á þessu mikilvæga mótunarskeiði. Formenn ASÍ, BSRB og BHM hafa bent á að konur séu fjórum til fimm sinnum lengur frá vinnu en karlar vegna barneigna og það sé ein af ástæðum þess að konur hafi lægri laun en karlar og minni möguleika á starfsframa auk þess sem þær ávinni sér minni lífeyrisréttindi yfir starfsævina. 8. gr. óbreytt í frumvarpi hæstv. félags- og barnamálaráðherra er betri en þessi breytingartillaga. Þess vegna segi ég nei.