151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[15:37]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Hæstv. forseti. Ég segi já þótt það sé ekkert leyndarmál að ég hefði viljað sjá stærri skref stigin í átt að auknum sveigjanleika og frelsi við skiptingu fæðingarorlofs. Pólitíski veruleikinn er annar. Það er gott og göfugt markmið að vilja tryggja jafnrétti á vinnumarkaði og það styð ég. Ég treysti hins vegar bæði fólki og fyrirtækjum til að vinna saman að því og tel raunar nauðsynlegt að öllum sem að koma verði treyst. Ég hefði helst viljað ná málamiðlun sem væri fjórir, fjórir, fjórir eins og við ræddum hér áðan. Aðstæður fólks eru mismunandi og það verður að gefa svigrúm sem tekur tillit til þess. Umsagnir um þetta mál voru skýrar, langflestar komu frá ungu fólki og krafan var nánast einróma og hvellskýr. Unga fólkið vill frelsi og sveigjanleika. Okkur ber að virða óskir þess. Breytingartillaga meiri hluta velferðarnefndar er klár áfangasigur frá þeirri skiptingu sem frumvarpið gerði upphaflega ráð fyrir.

En ég ítreka að ég hefði viljað sjá mun meira svigrúm, mun meira frelsi. Endurskoðunarákvæði er til staðar og það er trú mín og reynsla að það muni styðja við sjónarmið okkar. Við viljum treysta foreldrum og atvinnulífi til að tryggja jafnréttið og festa það í sessi. Ég hef heyrt sjónarmið verðandi foreldra og ég mun áfram berjast fyrir þeim af krafti á meðan ég á sæti á hinu háa Alþingi.

(Forseti (SJS): Þingmaðurinn segir?) — Já.