151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[15:39]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka að það er ekki hægt að tala um sveigjanleika eða frelsi hjá fólki þegar jafnrétti er ekki til staðar. Ég tek undir það sem hæstv. forsætisráðherra sagði hér í gær: Jafnréttismál eru ekki gæluverkefni. Við þurfum alltaf að hafa augun á boltanum. Til að ná árangri í jafnréttismálum þurfum við að hafa úthald í að nota hvert tækifæri sem við höfum til að ná fullkomnu jafnrétti í íslensku samfélagi. Við erum ekki komin þangað.

Ég segi nei við þessari tillögu meiri hluta nefndarinnar, virðulegi forseti, af því að ég tel hana vera afrakstur ekki bara málamiðlana heldur hrossakaupa milli stjórnarflokkanna. Ég tel hana vera afturför frá því frumvarpi sem hæstv. félagsmálaráðherra, ráðherra Framsóknarflokksins, lagði fram hér í upphafi. Þá tillögu styð ég frekar en þessa tillögu meiri hlutans.